
Nýr íslenskur tölvuleikur gefinn út í dag
Skapið sveiflast með gengi fyrirtækisins
Fréttastofa heimsótti Radiant Games þegar leikurinn var enn í þróun fyrir tæpu ári síðan. Þá sagði Haukur Steinn Logason, rekstrarstjóri fyrirtækisins, skapið sveiflast með gengi fyrirtækisins. Áskoranir í nýsköpunarumhverfi væru mjög margar en starfið væri gefandi. „Skapið sveiflast svolítið með hvernig fyrirtækinu gengur. En ég væri ekki til í að gera neitt annað.“
Frá heimsókn fréttastofu til Radiant Games 2014.
Byrjaði sem skólaverkefni í HR
Þrír af fjórum stofnendum Radiant Games eru skólabræður úr tæknifræði í Háskólanum í Reykjavík en þróun tölvuleikjafyrirtækisins byrjaði í skólanum sem lítið verkefni. Nýi leikurinn er hins vegar fyrsta afurðin sem fer á markað og er íslenska útgáfa leiksins undanfari útgáfu erlendis að sögn Vignis Arnar Guðmundssonar, framkvæmdastjóra fyrirtæksins. „Við höfum miklar væntingar fyrir leikinn. Þetta er leikur sem við trúum að geti orðið besti leikurinn sem er í boði fyrir þá sem vilja læra forritun.“
Styrkur Rannís líflína Radiant Games
Radiant Games hlaut veglegan styrk úr Tækniþróunarsjóði Rannís fyrir rúmu ári. Fyrirtækið fær 12,5 milljónir króna í styrk á ári í þrjú ár.
Rúmir átta mánuðir hafa farið í beina vinnslu við leikinn sem nú er kynntur notendum þó þróunarstarf hafi staðið yfir lengur. Í leiknum tekur notandinn þátt í ævintýri á eyjunni Box Island en þar fer aðalsöguhetjan Hiro í leiðangur til að bjarga vini sínum eftir að loftbelgur þeirra brotlendir á eyjunni. Leikinn er hægt að nálgast á App Store og kostar rúmar 700 krónur.