Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Nýr galli fannst í 737 Max vélunum

17.01.2020 - 23:47
epa07728396 Southwest Airlines Boeing 737 Max aircraft sit parked on the tarmac of Southern California Logistics Airport in Victorville, California, USA, 19 July 2019. According to media reports, Southwest Airlines has announced that it would be taking Boeing 737 Max out of schedules until November. The Boeing 737 Max was grounded by aviation regulators and airlines around the world in March 2019 after 346 people were killed in two crashes.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: epa
Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing greindi frá því í dag að nýr galli hafi fundist í hugbúnaði 737 Max véla fyrirtækisins. Tegundin var kyrrsett í mars í fyrra eftir tvö flugslys á skömmum tíma.

Í yfirlýsingu frá Boeing segir að unnið sé að nauðsynlegum uppfærslum í samstarfi við bandaríska flugmálaeftirlitið. Fyrirtækið segist vera í góðu sambandi við viðskiptavini sína. Vonast er til þess að gallinn leiði ekki til enn frekari tafa við að koma 737 Max vélunum í loftið á nýjan leik. 

Boeing greinir ekki frá því í yfirlýsingunni í hverju nýfundni gallinn felst. Samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar leiðir gallinn til bilunar í öðrum hugbúnaði vélarinnar þegar hún er sett í gang. Sami heimildamaður segir AFP að gallinn sé minniháttar og hafi fundist við skoðun á tæknibúnaði í síðustu viku.

Bandaríska flugmálaeftirlitið fylgist grannt með viðgerðum á 737 Max vélunum. Gera þarf við búnað sem kemur í veg fyrir ofris vélarinnar. bilun í honum er talinn hafa valdið flugslysum í Indónesíu og Eþíópíu þar sem 346 létu lífið.