Nýr forseti Georgíu kemur frá Frakklandi

29.11.2018 - 04:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Salóme Zurabishvili verður næsti forseti Georgíu og fyrsta konan til að gegna því embætti. Hún bar sigurorð af Grigol Vashade í seinni umferð forsetakosninganna í landinu í gær, þegar kosið var á milli þeirra tveggja frambjóðenda sem flest atkvæði fengu í fyrri umferðinni. Zurabishvili fæddist í Frakklandi og bjó þar lengst af en er fyrrverandi utanríkisráðherra Georgíu og situr þar nú á þingi sem óháður þingmaður. Naut hún stuðnings stjórnarflokksins, Draums Georgíu, í kosningunum.

Var því víða litið svo á, að gengi hennar í forsetakosningunum væri til marks um vinsældir ríkisstjórnarinnar, sem hafa farið dvínandi að undanförnu. Sé gengi hennar marktækur mælikvarði á þær geta stjórnarherrarnir andað léttar, því sigur Zurabishvili var næsta öruggur; hún hlaut tæplega 60 prósent atkvæða á móti rétt rúmlega 40 prósenta fylgi Vashades, sem naut stuðnings stjórnarandstöðuflokka á þingi.

Áhrifakona í frönsku utanríkisþjónustunni

Salóme Zurabishvili er 66 ára gömul dóttir georgískra innflytjenda í París, sem var hennar heimaborg fram á þessa öld. Hún gegndi trúnaðar- og áhrifastöðum innan frönsku utanríkisþjónustunnar um árabil, meðal annars hjá Sameinuðu þjóðunum, í sendiráðinu í Washington, í höfuðstöðvum Nató í Brussel, hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) og víðar.

Hún kom fyrst til Georgíu sem ferðamaður árið 1986, en varð sendiherra Frakka þar í landi árið 2003. Aðeins ári síðar veitti þáverandi Georgíuforseti, Mikheil Saakashvili, henni georgískan ríkisborgararétt með sérlegri forsetatilskipun, og skipaði hana utanríkisráðherra í stjórn sinni án frekari málalenginga. Hennar fyrsta og mikilvægasta verkefni í því embætti var að leiða samningaviðræður við Rússa um brotthvarf herja þeirra frá Georgíu. Tókst henni það með ágætum á þeim stutta tíma sem hún var í embætti, en árið 2005 var hún komin í stjórnarandstöðu.

Zurabishvili sver embættiseiðinn um miðjan desember og mun gegna embættinu næstu sex árin. Hún er síðasti forsetinn sem Georgíumenn kjósa í beinum kosningum, því samkvæmt stjórnarskrárbreytingu sem nú hefur tekið gildi verða forsetar framtíðarinnar kosnir af 300 kjörmönnum, sem kosnir eru með svipuðum hætti og tíðkast í forsetakosningum í Bandaríkjunum. Öfugt við það sem tíðkast í Bandaríkjunum - og í Georgíu í dag - munu forsetar framtíðarinnar hins vegar hafa tiltölulega lítil völd, auk þess sem þeir verða framvegis kosnir til fimm ára í stað sex. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi