Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nýjasta vegasjoppa landsins opnar á Möðrudal

27.01.2020 - 19:45
Mynd: RÚV/Björgvin / RÚV/Björgvin
Kjötsúpa, ástarpungar og hreindýrabollur verða helsta aðdráttarafl nýjustu vegasjoppu landsins sem opnuð verður á Möðrudal á fjöllum á næstu dögum. Nær allar innréttingar í henni eru smíðaðar úr lerki úr Hallormsstaðaskógi.

Vegasjoppan, sem fengið hefur heitið Beitarhúsið, stendur við beygjuna inn á Möðrudalsleið af þjóðvegi eitt. Þegar fréttastofu bar að garði var ferðaþjónustubóndinn Vilhjálmur Vernharðsson og félagar hans í óða önn við að standsetja sjoppuna.

Vantaði eitthvað á þennan legg

Vilhjálmur hefur rekið ferðaþjónustuna Fjalladýrð um árabil sem er um það bil sjö kílómetra frá nýju sjoppunni. Hann lítur þó ekki svo á að þar með sé hann kominn í samkeppni við sjálfan sig. „Er ekki öll samkeppni holl? Ég held það, nei nei. Jú auðvitað er þetta kannski samkeppni við sjálfan mig en samt ekki því það er auðvitað mikil umferð á þjóðveginum sem kemur ekkert inn eftir. Þetta er bara eitthvað sem þarf, langt á milli staða og vantaði bara eitthvað á þennan legg á þjóðveginum.“

Hreindýrabollur verða sérstaðan

Margir tengja vegasjoppur nútímans eflaust við steikta hamborgara og franskar en á matseðlinum sem Vihjálmur hefur sett saman er lögð áhersla á heimatilbúinn mat. „Við bökum ástarpunga og kleinur og svoleiðis bakkelsi hérna á hverjum degi, verðum með kjötsúpu, súpur og svo verður kannski sérstaðan að við ætlum að vera með hreindýrabollur.“

Innréttingarnar úr Hallormsstaðaskógi

Nær allar innréttingar sjoppunnar eru úr íslensku lerki úr Hallormsstaðaskógi sem gefur sjoppunni öðruvísi og ef til vill hlýlegri brag en öðrum nútíma vegasjoppum. „Við lögðum upp með það að hafa þetta hlýlegt og kósý en svo erum við kannski búin að fara lengra með það en við ætluðum og í rauninni búin að smíða allt úr lerki og innrétta nánast allt húsið með lerki.“

Þótt ætlunin sé að opna Beitarhúsið í vikunni er Vilhjálmur enn ekki farinn að huga að opnunarhátíð. „Það verður opnað. Við erum ekki búnir að halda reisugilli enn þá. Ætli við verðum ekki að bjóða iðnaðarmönnunum í reisugilli“

Magnús Geir Eyjólfsson