Nýjar höfuðstöðvar hagkvæmar - ekki bruðl

13.07.2015 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbankinn Landsbankinn
Bankastjóri Landsbankans segir að hagkvæmt sé að byggja nýjar höfuðstöðvar bankans við Hörpu. Hann hafnar gagnrýni varaformanns fjárlaganefndar Alþingis sem segir að byggingin sé bruðl.

Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, sagði í fréttum um helgina að illa væri farið með peninga skattgreiðenda með því að byggja höfuðstöðvar Landsbankans á dýrasta stað á landinu.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir það ekki rétt. Bankinn búi við aðstæður sem séu óviðeigandi, hann sé á mörgum stöðum í Kvosinni í Reykjavík og borgi víða háa leigu þannig að hrein sóun sé í gangi.  

„Við viljum staðsetja bankann þar sem verslun og viðskipti eiga sér stað fyrst og fremst í Reykjavík, á svæðinu frá miðbæ að Kirkjusandi og þar í kring. Við höfum verið að skoða kostina og niðurstaða liggur fyrir. Við fengum þessa lóð við Austurhöfn á góðu verði. Búið er að taka grunninn og jarðvinnu er að mestu lokið. Byggingagjöld eru innifalin. Við skoðuðum aðra kosti og niðurstaðan af þeirri skoðun er að þetta væri hagkvæmara. Þar kemur til lóðarverð. Það er ekki svo mikill munur á lóðarverði í Reykjavík, hvar maður setur sig niður. En kannski er aðalatriðið það að með því byggja á þessum stað, þá getur bankinn sparað í byggingakostnað í bílastæðum“.  

Steinþór bendir á að bílastæði séu tilbúin. Stæðin í kjallaranum við Hörpu nýtist allan daginn. Ekki verði eingöngu bankastarfsemi í nýja húsinu, á jarðhæð verði verslanir sem laði til sín fólk og geri húsið líflegt. En var þetta þá ódýrasti kosturinn?

„Við skoðuðum hluti inni í Borgartúni og þar í kring,“ segir Steinþór, „og þá var þetta ódýrara. Síðan hafa okkur verið boðnir aðrir kostir en við höfum verið að byggja á tölum frá verkfræðistofu utan úr bæ hvað það kostar að byggja. Við viljum halda okkur við raunhæfar tölur. En þetta var bara mjög hagkvæmt já.“ 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi