Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Nýi Herjólfur á leið í slipp

19.07.2019 - 15:05
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Nýi Herjólfur fer í slipp í haust vegna galla í öðrum jafnvægisugga skipsins. Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, segir að gallinn hafi ekki áhrif á siglingar nýja skipsins fram að því. Hann vonast til að það liggi fyrir eftir helgi hvenær siglingar nýju ferjunnar hefjast.

Nýi Herjólfur kom til landsins fimmtánda júní en tafir hafa orðið á því að hann hefji áætlunarsiglingar milli lands og eyja. Síðast í gær var ekki hægt að sigla ferjunni vegna framkvæmda við viðlegukant í Vestmannaeyjahöfn. 

Nú hefur komið í ljós galli í öðrum jafnvægisugga nýju ferjunnar og hefur verið ákveðið að hún fari í slipp í lok september. Eyjar.net greindu fyrst frá og segja að ferjan fari í slipp á Akureyri. 

Guðbjartur segir að gallinn hafi uppgötvast í siglingunni til Íslands. Gallinn valdi því að sjór komist inn í vökvakerfi uggans.  Framleiðandinn ætli að laga þetta í slippnum í september, skipta um þéttibúnað og fóðringar til að fyrirbyggja leka inn á kerfið. Guðbjartur segir að ábyrgðartékk fari að öllu jöfnu fram innan árs frá afhendingu. Tími gefist til þess í millitíðinni til að tína til fleiri þætti sem þurfi að stilla betur þegar ferjan fer í slipp. 

Guðbjartur vonast til að það liggi fyrir eftir helgi hvenær rekstur á nýja Herjólfi hefst. Gamli Herjólfur sigli nú sjö ferðir á dag og haldi því áfram en vonast sé til þess að hægt verði að sigla nýja skipinu sem fyrst. „Það breytir svo sem ekki neinu fyrir okkur þá að það fari úr rekstri í einhvern smá tíma og gamla skipið heldur þá bara áfram með sömu áætlun í þann tíma sem nýja ferjan er í slipp.“

Er ekkert að nýja skipinu? Getur það alveg siglt? „Já, já. Þetta er ekkert sem stoppar siglingar á skipinu en þetta er eitthvað sem þarf að laga. Það er ekki gott að fá inn á lokað kerfi sjó. Við erum búin að vera í miklum og góðum samskiptum við framleiðandann og allt er þetta unnið í samráði við aðila, bæði fulltrúa Vegagerðarinnar og eins líka framleiðanda ugganna. Þannig að þetta er ekkert sem er stórtækt og stoppar eitt eða neitt.“