Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ný þáttaröð Apple TV í tökum á Íslandi

epa07794407 British actor Jared Harris arrives for the 71st Emmy Awards Season Peer Group Celebration at the Saban Media Center in North Hollywood, Los Angeles, California, USA, 25 August 2019.  EPA-EFE/NINA PROMMER
 Mynd: EPA - RÚV

Ný þáttaröð Apple TV í tökum á Íslandi

20.11.2019 - 14:45

Höfundar

Tökur á sjónvarpsþáttaröðinni Foundation, sem verður sýnd á streymisveitunni Apple TV, standa nú yfir skammt frá höfuðborgarsvæðinu. Tökurnar eru umfangsmiklar, samkvæmt upplýsingum fréttastofu, en hátt í 250 starfsmenn koma að þeim. Þá eru um 300 manns að störfum á Skálafellsjökli í tengslum við nýjustu mynd Chris Pratt, The Tomorrow War.

Bæði verkefnin eru á vegum framleiðslufyrirtækisins True North en starfsmenn fyrirtækisins vildu ekkert tjá sig um málið.

Foundation er byggð á vísindaskáldsögum Isaac Asimov  og skartar Jared Harris í aðalhlutverkinu. Asimov nýtur mikilla vinsælda hjá aðdáendum vísindaskáldskapar og til marks um það eru verk hans hluti af gagnageymslu Teslunar sem er nú á sveimi í geimnum

Jared Harris var tilnefndur til Emmy-verðlauna fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Chernobyl sem Hildur Guðnadóttir samdi tónlistina fyrir. Meðal annarra leikara má nefna Clarke Peters sem sagðist ekkert geta tjáð sig um tökurnar í viðtali við breska blaðið Mirror í dag. 

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er Ísland notað undir einn heiminn í þáttunum. Ef þáttaröðin fellur í kramið hjá áskrifendum Apple TV er líklegt að ráðist verði í framhald. Ísland  yrði þá áfram notað eins og gerðist þegar tökulið Game of Thrones og Fortitude voru hér reglulega í tökum.

Þetta er ekki eina stóra verkefnið því upp á Skálafellsjökli eru nú um 300 manns að störfum við nýjustu kvikmynd Chris Pratt, The Tomorrow War.  Pratt hefur verið duglegur að deila myndum af tökustaðnum á samfélagsmiðlinum Instagram.  Myndin segir frá því þegar jarðarbúar eru að tapa stríði við geimverur og leita til hermanna úr fortíðinni til að snúa taflinu við. Með önnur hlutverk í myndinni fara Óskarsverðlaunahafinn JK Simmons og Yvonne Jaqueline Strzechowski.

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Even big crews are small on the mountain. #makingmovies

A post shared by Matt Petrosky SOC (@the_mapcam) on