Ný stjórnmálahreyfing stofnuð

07.06.2019 - 21:40
Mynd með færslu
 Mynd: AP Images - RÚV
Ný stjórnmálahreyfing hefur verið stofnuð og ber hún nafnið Lýðræðishreyfingin. Benedikt Lafleur Sigurðsson, formaður hreyfingarinnar, segir að helstu áhersluefni flokksins séu að virkja lýðræði og leyfa þjóðinni að eiga lokaorðið. Benedikt segir að þjóðin hafi siðferðislegan þroska til þess að taka stórar ákvarðanir.

Vonast til að bjóða fram í næstu kosningum

Félagið hefur í hyggju að bjóða fram lista bæði í sveitastjórnar- og alþingiskosningum. Benedikt segir að margir hafi áhuga á að bjóða sig fram og að líklegt sé að það náist fyrir næstu kosningar. Hann segir að fólk úr öllum áttum hafi sýnt hreyfingunni áhuga, svo sem úr Sjálfstæðisflokki, Pírötum, Framsóknarflokki og Vinstri grænum.

Honum finnst raunhæfast að mögulegir samstarfsflokkar verði Miðflokkur, Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn. Hann segir þó að samstarf með öllum flokkum komi til greina, ákveði þeir að leyfa fólki að kjósa um stóru málin. Það sé lykilatriði.

Vilja undanþágu frá þriðja orkupakkanum

Samþykktir hreyfingarinnar taka á stórum málum. Þar er mælt fyrir um endurskoðun stjórnarskrár og lagt til að ákvæði í stjórnarskrá veiti almenningi rétt til að krefjast atkvæðagreiðslu um samþykktir Alþingis, sér í lagi mál er varða auðlindir. Í yfirlýsingu félagsins kemur fram að eðlilegast sé að almenningur taki ákvarðanir um samfélagshagsmuni, löggjafinn hlýði niðurstöðunni og ráðherrar hrindi henni í framkvæmd, án þess að koma að samningu laganna.

Þá er mælt fyrir um að farið verði fram á undanþágu frá þriðja orkupakkanum í heild sinni. Stofnun flokksins kom til í kjölfar umræðunnar um þriðja orkupakkann. Í yfirlýsingunni kemur fram að það geti verið hættulegt fullveldi Íslands og lýðræðinu að tiltölulega fámennur hópur fólks skuli geta vélað um framtíð þjóðarinnar og hunsað bæði þjóðarvilja og samþykktir eigin flokksfélaga.

Þar að auki verði mikil áhersla lögð á framkomu gagnvart öldruðum og yngstu kjósendum.

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi