
Ný stjórnarskrá í burðarliðnum í Chile
Stjórnlaganefnd verður sett á laggirnar til að búa til drögin. Þau verða svo lögð fyrir almenning til þjóðaratkvæðagreiðslu, að sögn innanríkisráðherrans Gonzalo Blumel. Hann greindi frá þessu eftir fund með stjórnmálaflokkum hægra megin við miðju, sem hafa hingað til ekki viljað breyta núverandi stjórnarskrá.
Mótmælin í Chile hafa á tíðum verið hatrömm og ofbeldisfull. Almenningur er kominn með nóg af stöðnun. Mótmælendur kvörtuðu undan lágum launum, háum skólagjöldum og dýrri heilbrigðisþjónustu, auk sívaxandi bils á milli ríkra og fátækra í landinu. Mótmælin hófust 18. október þegar stjórnvöld tilkynntu hækkun á fargjöldum með almenningsvögnum. Síðar undu þau upp á sig og urðu að allsherjar mótmælum gegn ríkjandi stjórnvöldum og kröfu um breytta stjórnarskrá. Samkvæmt nýlegri könnun eru nærri níu af hverjum tíu íbúum Chile hlynntir nýrri stjórnarskrá.