Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ný Sauðárkrókslína tvöfaldar flutningsgetu

30.05.2019 - 21:00
Mynd með færslu
Sauðárkrókslína 1 Mynd: Landsnet - Mynd af vefsíðu Landsnets
Landsnet hefur boðið út vinnu við nýjan jarðstreng milli Sauðárkróks og Varmahlíðar sem á að tvöfalda flutningsgetu raforku. Vonast er til að framkvæmdir hefjist í sumar. Kostnaður er áætlaður ríflega tveir milljarðar króna.

Sauðárkrókslína 2 hefur lengi verið á teikniborðinu enda hefur eina tenging Sauðárkróks við flutningskerfið verið um 40 ára gamla loftlínu. Verkefnið var sett í bið 2009 en komst aftur á dagskrá fyrir nokkrum árum og átti að hefja framkvæmdir í fyrra. 

Bíða eftir grænu ljósi

Nils Gústavsson, framkvæmdastjóri framkvæmda- og rekstrarsviðs Landsnets, segir að skipulagsbreytingar hafi tafið framgang verkefnisins. „Mér skilst að málið liggi núna hjá Skipulagsstofnun að staðfesta skipulagið sem hefur núna verið afgreitt af sveitarfélaginu,“ segir Nils. 

Í framhaldi af því gefi sveitarstjórn Skagafjarðar væntanlega út framkvæmdaleyfi. Fyrirhugað er að leggja 23 kílómetra jarðstreng milli Sauðárkróks og Varmahlíðar og annan tveggja kílómetra langan við enda gömlu línunnar að tengivirki sem verður reist á Sauðárkróki. Þá verður hluti af tengivirkinu í Varmahlíð endurnýjaður. Heildarkostnaður er áætlaður um 2,2 milljarðar króna. 

Vonast til að hefja framkvæmdir í sumar

Óskað hefur verið eftir tilboðum í jarðvinnu og lagningu jarðstrengs. „Síðan í framhaldi erum við að fara að bjóða út líka stækkun á tengivirkinu í Varmahlíð og nýtt tengivirki á Sauðárkróki. Við vonumst til að geta farið að framkvæma þarna um mitt sumar, eða svona síðsumars,“ segir Nils. 

Línan yrði þá tekin í notkun á seinni hluta næsta árs. Markmiðið er að auka afhendingaröryggi og jafnframt að tvöfalda flutningsgetu til Sauðárkróks. Nils segir að samið hafi verið við landeigendur og almenn sátt sé um framkvæmdina. „Það hefur gengið bara vel, allt samtal við sveitarfélagið og við alla hagaðila á svæðinu,“ segir Nils. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV