
Ný ríkisstjórn tekur við völdum í dag
Núverandi stjórn fer á ríkisráðsfund á Bessastöðum með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, klukkan hálftvö. Þar verður starfsstjórnin sem Bjarni Benediktsson hefur leitt leyst frá störfum. Klukkan þrjú hefst svo annar ríkisráðsfundur, þar sem ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur tekur formlega við völdum.
Alls koma fimm ráðherrar úr röðum Sjálfstæðisflokksins, Vinstri Græn skipa þrjá ráðherra og Framsókn þrjá. Þá mun forseti Alþingis koma úr röðum Vinstri grænna, og samkvæmt heimildum fréttastofu mun Steingrímur J. Sigfússon gegna því embætti.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins og Morgunblaðsins skiptast ráðuneyti að öðru leyti þannig á milli flokka, að Sjálfstæðisflokkurinn mun manna utanríkisráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti, auk fjármálaráðuneytisins; Vinstri græn taka að sér ráðuneyti heilbrigðismála og umhverfismála, auk forsætisráðuneytisins, en Framsóknarflokkurinn skipar fólk í stóla sæti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, menntamálaráðherra og ráðherra velferðarmála. Lyklaskipti milli ráðuneyta verða síðan á morgun.
Fréttin hefur verið uppfærð.