
Ný ríkisstjórn tekur við eftir hádegi
Þingflokkar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar samþykktu tillögur um verkaskiptingu í nýrri ríkisstjórn í gærkvöld. Ráðherrar Sjálfstæðisflokks verða sex, Viðreisnar þrír og Bjartrar framtíðar tveir. Fjórar konur og sjö karlar skipa ríkisstjórnina. Af ellefu ráðherrum hafa fjórir áður gegnt ráðherraembætti en sjö setjast á ráðherrastól í fyrsta sinn.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, verður forsætisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Tveir ráðherrar verða í innanríkisráðuneytinu, Sigríður Ásthildur Andersen fer með dómsmál og Jón Gunnarsson með samgöngu-, byggða- og sveitarstjórnarmál. Kristján Þór Júlíusson verður menntamálaráðherra. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir verður ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, verður fjármálaráðherra. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þorsteinn Víglundsson félagsmála- og jafnréttisráðherra.
Óttarr Proppé, formaður Viðreisnar, verður heilbrigðisráðherra og Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra.