Ný ríkisstjórn í Danmörku á morgun

26.06.2019 - 14:59
Mynd: DR / Danmarks Radio
Ný ríkisstjórn Jafnaðarmanna tekur formlega við völdum í Danmörku á morgun er Mette Frederiksen gengur á fund Margrétar 2. drottningar í Amalíuborg og kynnir nýja ráðherra. Þær drottningin hittust í dag og fól Margrét Frederiksen að mynda stjórn. Nýja stjórnin nýtur stuðnings Radikale Venstre, Sósíalíska þjóðarflokksins og Einingslistans. Í stefnuyfirlýsingu er áhersla lögð á áhersla á umhverfis- og velferðarmál.

Samkomulag eftir þriggja vikna viðræður

Samkomulag tókst í gærkvöld um myndun nýrrar stjórnar í Danmörku eftir þriggja vikna viðræður mið- og vinstriflokka. Danir kusu nýtt þing 5. júní og þá fengu þessir flokkar meirihluta þingmanna. Mette Frederiksen, leiðtogi Jafnaðarmanna, verður forsætisráðherra. Jafnaðarmenn verða einir í stjórninni en ekki er enn ljóst hvernig ráðherraembætti verða skipuð. 

Umhverfismál, velferð og málefni útlendinga

Stefnuyfirlýsingin er 18 síðna plagg og ber yfirskriftina Retfærdig retning for Danmark, eða Réttlát stefna fyrir Danmörku. Í stefnuyfirlýsingunni er lögð mikil áhersla á umhverfis-, loftslags- og velferðarmál. Í umhverfismálum er ætlunin að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 70 prósent til ársins 2030. Þá er í skjalinu fjallað um málefni útlendinga, hælisleitenda og flóttafólks. 

Velferðarkerfið styrkt

Áhersla er lögð á að styrkja velferðar- og menntakerfið og berjast gegn vaxandi misskiptingu og miðstýringu.  Málefni flóttafólks og útlendinga koma líka við sögu og meðal annars kveðið á um að bæta aðstæður barnafjölskyldna í röðum flóttafólks og hælisleitenda sem vísa á úr landi. Stefnt að móttöku kvótaflóttamanna á ný eftir nokkurra ára hlé og greiða skal leið erlends vinnuafls inn í landið. Hið síðastnefnda er stefnumál Radikale Venstre.

Jafnaðarmenn þurftu að gefa eftir varðandi eftirlaunarétt

Fréttaskýrendur segja að Jafnaðarmenn hafi gefið eftir á tveimur mikilvægum stefnumálum þó að Mette Frederiksen, verðandi forsætisráðherra, vilji ekki viðurkenna það. Þetta eru mál sem varða eftirlaunarétt og útlendinga. Jafnaðarmenn lögu mikla áherslu í upphafi kosningabaráttunnar á rétt vinnulúinna til að fara fyrr á eftirlaun. Um þetta segir ekkert í stefnuyfirlýsingunni en Mette Frederiksen segist ekki trúa öðru en hún fái meirihluta fyrir málinu á þingi. 

Breytt stefna í málefnum innflytjenda og útlendinga

Hitt málið þar sem Jafnaðarmenn hafa þurft að gefa eftir er stefnan varðandi útlendinga og innflytjendur. Jafnaðarmenn tóku upp harða og óvægna stefnu Danska þjóðarflokksins en þurfa nú að gera vegamiklar breytingar. Börn verða ekki lengur í Sjælsmark-búðunum á Norður-Sjálandi en þar hefur verið vistað fólk sem vísað hefur verið úr landi við aðstæður sem flokkarnir sem nú taka við telja ómannúðlegar. 

Kjærsgaard gagnrýnir stefnubreytingu

Pia Kjærsgaard, helsti hugmyndafræðingur Danska þjóðarflokksins og fyrrverandi formaður flokksins, var ómyrk í máli er hún sagði Krata hafa svikið það sem þeir sögðu í kosningabaráttunni og Radikale Venstre hefðu beygt Frederiksen 

Der er noget skidt.  Pia Kjærsgaard.

 

Óskalisti sem ekki er fjármagnaður

Lars Løkke Rasmussens, fráfarandi forsætisráðherra, segir að stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar sé bara óskalisti og ekkert sé þar að finna um hvernig eigi að fjármagna stóraukin ríkisútgjöld. 

 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi