Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ný rannsókn: Vatnajökull gæti nánast horfið fyrir 2300

24.11.2019 - 19:03
Mynd: Þorvarður Árnason / Þorvarður Árnason
Vatnajökull gæti nánast horfið á næstu þremur öldum, verði ekkert gert til að koma í veg fyrir áframhaldandi hækkun hitastigs. Þetta eru niðurstöður nýrrar íslenskrar doktorsrannsóknar.

Þrír stærstu jöklar landsins hafa minnkað meira síðan í fyrra en þeir hafa gert árlega síðastliðinn áratug, eða frá því að Eyjafjallajökull gaus. Þetta sýna nýjar mælingar sem sagt var frá í fréttum í vikunni. Í nýrri doktorsrannsókn sem unnin var við Háskóla Íslands og verður birt í vísindatímaritinu Journal of Glaciology á næstu vikum, var sjónum beint að Vatnajökli, og áhrifum hækkandi hitastigs á hann. Vatnajökull mun endast lengur en aðrir jöklar, bæði vegna þess að hann er mun stærri en þeir allir, en einnig vegna þess að hann situr hærra en aðrir jöklar.

Vísindamennirnir notuðu reiknilíkön til þess að spá fyrir um hvernig jökullinn þróast ef hitastig hækkar um tvær gráður fram til ársins 2100, og hættir svo að hækka, og svo hvernig hann þróast ef hitastig hækkar um fjórar gráður.

Niðurstaðan er sú að ef hitastigið hækkar um tvær gráður, minnkar rúmmál Vatnajökuls um 30-60% fram til ársins 2300, allt eftir því hvernig aðrir þættir eins og úrkoma þróast. Ef hitastigið hækkar um fjórar gráður minnkar rúmmál jökulsins hins vegar um 60 til tæplega 100%.

„Leiðin sem við erum á“

„Þannig að það skiptir í rauninni mjög miklu máli fyrir jökla landsins, hvort okkur tekst að halda losun innan þeirra marka sem Parísarsamkomulagið hefur ákveðið, að halda hlýnun innan við tvær gráður, eða ef við höldum áfram að losa eins og við höfum verið að gera. Og þá mun að öllum líkindum hlýna allt undir fjórar gráður og þá mun stærstur hluti Vatnajökuls hverfa í rauninni,“ segir Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor í jöklafræði við jarðvísindadeild Háskóla Íslands og einn af höfundum rannsóknarinnar.

Og fjórar gráður er sú hlýnun sem menn eru að spá fyrir að verði ef ekkert verður að gert?

„Ef ekkert verður að gert er þetta leiðin sem við erum á og gróðurhúsalofttegundir verða til þess að hitastig mun hækka um fjórar gráður til næstu aldamóta.“

En eins og áður hefur komið fram hefur þetta hraðvirkari áhrif á minni jöklana?

„Já. Hofsjökull og Langjökull liggja lægra og þeir eru minni og þeir munu væntanlega minnka um 70-80% fram til loka þessarar aldar. Þannig að þeir munu bregðast miklu hraðar við en Vatnajökull,“ segir Guðfinna.