Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ný námsbraut í sviðslistum í Menntaskólanum á Akureyri

Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir / Þórgunnur Oddsdóttir

Ný námsbraut í sviðslistum í Menntaskólanum á Akureyri

20.02.2020 - 14:53

Höfundar

Næsta vetur verður hægt að hefja nám á sviðslistabraut við Menntaskólann á Akureyri. Það hefur hingað til ekki staðið til boða á Norðurlandi að stunda nám tengt sviðslistum. Verkefnisstjóri og brautarstjóri námsins segjast vera að svara ákalli nemenda um að bjóða upp á slíkt nám.

„Við höfum lengi velt fyrir okkur að koma inn á nám í einhverju tengdu sviðslistum. Erum með gríðarlega öflugt leikfélag og mikill áhugi að taka þátt í starfinu sem það félag stendur fyrir. Svo höfum heyrt af því að nemendur flytjast búferlum suður til að taka þátt í námi þessu tengt,” sagði Alma Oddgeirsdóttir, brautarstjóri námsins, í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Það ætti því ekki að þurfa að flytja til að stunda nám í sviðslistum. Alma segir að marga hæfileikaríka krakka langi til að taka þátt í starfi sem þessu og áherslan verður því ekki einungis á leiklist heldur verður einnig boðið upp á nám í ýmsu öðru sem tengist leiklist. 

Vala Fannell er verkefnisstjóri námsins og hún tekur undir að mikilvægt sé að kynna nemendum fjölbreytileika sviðslista, enda margir sem hafi áhuga á leikhúsi án þess að vilja standa upp á sviði. „Þegar námið byrjar að byggjast upp förum við að færa okkur út í tæknihliðina, ljós, hljóð, leikmynd, búninga og gervi.”

„Þá standa samningar yfir við Leikfélag Akureyrar um samstarf og er þá hugmyndin að nemendur geta komið inn á æfingarferli, fylgjast með uppbyggingu leiksýningar, rætt við fagfólk á sínu sviði, fá að kynnast og vinna með faglega tækni inn í leikhúsumhverfinu,” sagði Vala. 

Nemendur sem velja þessa braut ljúka stúdentsprófi af kjörnámsbraut. Áhersla er einnig á að veita nemendum góðan grunn fyrir nám í háskóla. Nemendur ættu að vera vel undirbúnir fyrir nám í félags- og hugvísindanámi, að sögn Ölmu.

Námið verður í boði strax næsta haust og skráning hefst í mars.