Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ný mállýska uppgötvuð í Árósum

04.02.2020 - 19:57
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: Wikipedia
Danskur málvísindamaður hefur staðfest að ný mállýska hafi skotið rótum í vesturhluta Árósa, næststærstu borg Danmerkur. 

Ditte Zachariassen, málvísindafræðingur við Árósaháskóla fjallar um þessa nýju mállýsku í nýjasta riti Móðurmálsfélagsins í Danmörku. Hún segir að þetta sé ný bæjarmállýska en hugtakið bæjarmállýska á rætur sínar að rekja til Noregs, þar sem fjölbreyttar mállýskur hafa þróast í bæjum með öðrum hætti en mállýskur í dreifbýlinu.

Þessi nýja danska mállýska er upprunnin í Gellerup-hverfinu í Árósum, en stór hluti íbúa hverfisins er af erlendu bergi brotin, ýmist innflytjendur eða afkomendur þeirra. Ditte Zachariassen segir hins vegar að þessa mállýsku megi ekki rekja til neins ákveðins þjóðernis eða framandi tungumáls. Þetta sé mállýska sem eigi sér landfræðilegar rætur, sumsé Gellerup í Árósum.

Zachariassen segir að í dönsku séu þrjár meginaðferðir notaðar til þess að raða saman orðum svo úr verði rétt mynduð setning, en í hinni nýju bæjarmállýsku sé að finna fjórðu aðferðina. Með þeirri aðferð sé í raun hægt að nota færri orð til þess að segja meira.

Zachariassen segir í samtali við Kristilega dagblaðið í Danmörku að þessi tíðindi séu hvorki gleðileg né sorgleg, þetta sé bara staðreynd og að það sé í raun svona sem tungumál þróist um allan heim og á öllum tímum.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV