Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ný kona leiði lista Framsóknar

24.04.2014 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Listi Framsóknarmanna til borgarstjórnarkosninga er tilbúinn. Þetta segir formaður Kjördæmasambandsins. Hann vill þó ekki gefa upp hver verður oddviti, en það verði að öllum líkindum ný kona á lista. Ákvörðun Guðna Ágústssonar, fyrrverandi ráðherra, um að leiða ekki listann, hafi komið á óvart.

Stjórn kjördæmasambands Framsóknarflokksins gaf Guðna fullt umboð til að skoða fólk og málefni flokksins fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar og taka við oddvitasætinu af Óskari Bergssyni. Stjórnin var einhuga í þeirri ákvörðun.

Guðni tók sér páskafríið til að hugsa málið og ætlaði að tilkynna ákvörðun sína í dag, á Reykjavíkurflugvelli. Málin tóku hins vegar óvænta stefnu í gærkvöld þegar ákveðið var að fresta kjördæmaþingi fram á þriðjudag. Ljóst var að Guðni ætlaði ekki að taka slaginn.

Hann vildi ekki gefa fréttastofu viðtal en í tilkynningu sem hann sendi frá sér í morgun segist hann hafa tekið þessa ákvörðun í samráði við fjölskyldu sína og að vel hugsuðu máli. 

Þórir Ingþórsson, formaður kjördæmasambands Framsóknarflokks, segir ákvörðun Guðna hafa komið á óvart. 

„Hann hafði hugsað málið um nokkra hríð, en við virðum þessa ákvörðun hans," segir Þórir. „Og eins og hann segir, þá er þetta af persónulegum ástæðum." 

Stokkað verður upp á öllum lista flokksins og hann kynntur á þriðjudag. Heimildir fréttastofu herma að ný kona á lista vermi oddvitasætið. Þórir segir það rétt. Þó er ljóst að Guðrún Bryndís Karlsdóttir, sem vermir annað sæti núverandi lista, mun ekki leiða flokkinn í borginni.

Þórir segir enn nægan tíma til stefnu til að kynna inn nýtt fólk á lista Framsóknar, en sveitarstjórnarkosningar eru 31. maí.

„Listinn er klár og það verður boðað til þings á þriðjudag," segir hann. „Vika er langur tími í pólitík."

[email protected]