Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ný fyrirtæki stofnuð á Borgarfirði eystra

Mynd með færslu
Stjórn verkefnisins „Betri Borgarfjörður“ Mynd: Byggðastofnun
Þrjú ný fyrirtæki hafa verið stofnuð á Borgarfirði eystra aðeins um einu og hálfu ári eftir sveitarfélagið var tekið inn í Brotthættar byggðir. 25 verkefni á Borgarfirði hafa nú hlotið styrki undir merkjum verkefnisins.

Verkefninu „Betri Borgarfjörður“ var hrundið af stað á Borgarfirði eystra í kjölfar íbúaþings þar í febrúar 2018. 

Íbúarnir tekið virkan þátt í átakinu

Alda Marín Kristinsdóttir, verkefnisstjóri, segir að strax á fyrsta degi hafi fjölmargar hugmyndir komið fram og íbúar hafi síðan tekið virkan þátt í þessu starfi. „Þeir eru held ég bara sammála um það að nýta sér allt það sem verkefnið hefur upp á að bjóða á meðan á meðan á því stendur."

25 borgfirsk verkefni hlotið styrki 

Um 25 verkefni á Borgarfirði hafa nú hlotið styrki úr sjóði Brothættra byggða. Alda segir að um helmingur þeirra sé kominn vel á veg og nokkur verkefni þegar skapað atvinnu. „Það er til dæmis verkefni sem heitir Íslenskur æðardúnn, sem lítur að fullvinnslu æðadúns. Það er náttúrulega Búðin á Borgarfirði, sem var stofnuð í fyrra og fagnaði eins árs afmæli núna í byrjun júlí. Svo er til dæmis Fjarðahjól ehf. sem er nýstofnuð hjólaleiga á Borgarfirði af ungum manni sem hyggst flytja þangað."

Beita þrýstingi til að bæta opinbera þjónustu

Þá sé verkefnisstjórn Brothættra byggða með í vinnslu ýmis mál sem lúta að innviðum á Borgarfirði og íbúarnir óskað eftir að verði fylgt eftir. Meðal annars um betri heilbrigðisþjónustu. „Staðan á Borgarfirði er þannig að það er lítil sem engin heilbrigðisþjónusta í héraði. Það þarf að leita upp á Fljótsdalshérð til þess að hittalækni. Og við höfum verið í viðræðum við Heilbrigðisstofnun Austurlands um það hvernig er betur hægt að koma til móts við íbúa á Borgarfirði," segir Alda Marín.