Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ný fjargeðheilbrigðisþjónusta tekin til starfa

23.05.2018 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Fyrsta fjargeðheilbrigðisþjónustan sem rekin er með leyfi Landlæknis tók til starfa hér á landi í apríl. Hún gengur undir nafninu Mín líðan og hafa tugir þegar skráð sig í meðferð. Tanja Dögg Björnsdóttir, sálfræðingur og Sveinn Óskar Hafliðason, hagfræðingur reka þjónustuna.

Boðið er upp á hugræna atferlismeðferð HAM við vægum til miðlungs einkennum þunglyndis og félagskvíða. Meðferðin er töluvert ódýari en hefðbundin meðferð á stofu hjá sálfræðingi.  

Rætt var við Tönju og Svein í Mannlega þættinum á Rás eitt í morgun. Fjargeðheilbrigðisþjónusta hefur verið rekin víða erlendis um langan tíma. Í sumum tilfellum er hún hluti af opinberri heilbrigðisþjónustu en einnig tíðkast að þjónusta af þessu tagi sé rekin af einkaaðilum. 

Rannsóknir hafa sýnt að hugræn atferlismeðferð á netinu er árangursrík við að minnka einkenni þunglyndis og kvíða og hún getur verið jafn árangursrík og hefðbundin meðferð á stofu hjá sálfræðingi. Einnig hafa rannsóknirnar sýnt að meðferðarsamband myndast milli sálfræðings og skjólstæðings í gegnum netið. Finna má frekari upplýsingar um þessar rannsóknir á vefnum Mín líðan þar sem einnig er hægt að skrá sig í meðferðina. 

Sveinn segir að viðbrögðin hafi verið mjög góð. 
Hvað hafa margir skráð sig hjá ykkur núna? Án þess að segja kannski nákvæma tölu þá erum við ekki að tala um hundruði en við erum að tala um tugi einstaklinga sem hafa hafið meðferð hjá okkur og við opnuðum í þessum mánuði eða fyrir þremur vikum síðan.“

Hvað kostar þetta?  Þetta er tíu skipta meðferð og hún kostar 39.900 hjá okkur og ef við berum það saman við hefðbundið sálfæðiviðtal hjá sálfræðingi á stofu þá eru þau að ná frá kannski fjórtán til 16 þúsund hvert viðtal.“

Fjargeðheilbrigðisþjónustan hentar þeim sem glíma við væg eða miðlungseinkenni þunglyndis og félagskvíða. Tanja segir að hún voni að þetta verði til þess að fólk leiti sér fyrr hjálpar. Fólk leiti sér seint aðstoðar vegna þess hve sálfræðiþjónusta er kostnaðarsöm.

„Þannig að með því að grípa strax inn í þá ertu að fyrirbyggja vandamál síðar á lífsleiðinni og þú ert að auka þín lífsgæði.“

Þrjú ár tók fyrir Tönju og Svein að koma verkefninu á koppinn. Sveinn segir þau hafi setið fjölmarga fundi með starfsmönnum velferðarráðuneytisins og embættis landlæknis.

Gerir embætti landlæknis miklar kröfur?  Já þetta er fyrsta íslenska fjargeðheilbrigðisþónustan sem fær leyfi til að starfa frá embætti landlæknis þannig að þetta er raunverulega tilraunaverkefni til eins árs.“ 

Verkefnið hefur fengið ýmsa styrki sá stærsti kom frá Tækniþróunarsjóði en einnig frá velferðarráðuneytinu, atvinnumálum kvenna, átaki til atvinnusköpunar og Lýðheilsusjóður veitti styrk til að kosta meðferð fyrir framhaldskólanema.   

Nokkrir framhaldsskólanemar hafa þegar hafið meðferð. „Við opnuðum bara fyrir tveimur eða þremur vikum síðan og byrjuðum þá að þjónusta þessa nemendur.“ 

Tanja segir að þeir sem áhuga hafa á að kynna sér fjargeðheilbrigðisþjónustuna geti farið á minlidan.is og fyllt út spurningalista. „Þá í rauninni getur þú séð hversu alvarleg þín einkenni eru, hvort þú sért með einhver einkenni þunglyndis eða einkenni félagskvíða. Meðferðin er sérstaklega ætluð þeim sem glíma við væg til miðlungseinkenni þannig að um leið og þú ert komin með einhver alvarleg einkenni þá er ekki mælt með að þú farir í þessa meðferð.“

Þeir sem fá grænt ljós eftir að hafa svarað spurningalistanum geta skráð sig í meðferðina. Til að gera það þarf fólk að hafa rafræn skilríki, sem var ein af kröfum embættis landlæknis til að tryggja öryggi trúnaðarupplýsinga. 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV