Heilbrigðisstarfsmenn sinna ebólusjúklingi í Beni í Austur-Kongó fyrr í sumar. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Staðfest hafa verið ebólu-smit í Suður-Kivu héraði í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó. 26 ára maður er þegar látinn og eitt barna hans hlýtur læknismeðferð vegna smits.
Fyrsta tilfelli ebólu í landinu greindist 1. ágúst í fyrra og síðan hafa tæplega tvö þúsund manns látist þar af völdum sjúkdómsins. Héraðsstjóri Suður-Kivu segir viðbragðsteymi heilbrigðisfólks kominn á staðinn til að veita stuðning vegna smitanna þar.
Þetta er tíundi ebólufaraldurinn síðan sjúkdómurinn greindist fyrst 1976 og sá versti síðan árin 2014 til 2016 er um ellefu þúsund létust í Gíneu, Síerra Leóne og Líberíu.