Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ný búð á Drangsnesi fimm dögum eftir að sú gamla lokaði

09.12.2019 - 22:25
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Verslun Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Drangsnesi á Ströndum var lokað í byrjun desember eftir tæplega 70 ára rekstur. Íbúar brugðust við í snatri og opnuðu nýja verslun fimm dögum síðar.

Við lokun Kaupfélagsins stóðu Drangsnesingar frammi fyrir því að þurfa að keyra 35 kílómetra til næstu verslunar á Hólmavík. Íbúarnir, sem eru rúmlega sjötíu, ákváðu því að taka málin í eigin hendur. Gunnar Jóhannsson er stjórnarformaður hins nýstofnaða Verslunarfélags Drangsness.

„Það var haldinn íbúafundur hérna á Drangsnesi og við skelltum okkur bara í það að opna aðra búð. Og við opnuðum á miðvikudaginn, en ekki mikið vöruúrval eins og stendur, en við opnuðum þó,“ segir Gunnar.

Enn er verið að safna í hlutafé í Verslunarfélag Drangsness, en nóg er komið til að renna stoðum undir rekstur og viðskiptavinir þegar byrjaðir að kaupa helstu nauðsynjar. Búðin verður rekin með breyttu sniði og Gunnar segir að hugmyndir eru uppi um umbúðalausa búð og netverslun.

„Hér væri bara tölva í búðinni sem starfsfólk búðarinnar myndi hjálpa fólki við að panta vöru, svo kæmi varan hér inn á gólf og yrði bara lesin í sundur eins og hver annars póstur,“ segir hann.

Gunnar segir þá að búa eigi til ákveðinn kjarna í nýju kaupfélagi fyrir íbúa, gesti og gangandi og hvern þann sem hug hefði á að kíkja inn.

„Þetta verður svona samfélagsaðstaða þar sem fólk getur komið og sest niður og haft hérna fallega útsýnið þar sem sést eyjan og fjörðurinn, hvalirnir og pottarnir. Þannig að við getum fengið fólk til að stoppa frekar og þá að versla, ekki kannski endilega þessa matvöru.“

Gunnar Jóhannsson, Gunnsi í Hveravík, í nýopnaðri verslun á Drangsnesi.
Gunnar er stjórnarformaður nýju verslunarinnar