Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Núna er ég í skjóli á meðan þau eru berskjölduð“

17.02.2020 - 22:12
Mynd: Mahmoud Albakour / RÚV
Níu hundruð þúsund manns, mest konur og börn, hafa þurft að flýja heimili sín í norðvesturhluta Sýrlands frá því í desember. Mahmoud Albakour, sýrlenskur blaðamaður, sem komst til Tyrklands óttast um andlega heilsu sína, það sé erfitt að vera sjálfur í skjóli á meðan fjölskyldan er berskjölduð fyrir sprengjuárásum.

Mánuðum saman hefur sýrlenski stjórnarherinn gengið hart fram við að ná aftur á sitt vald landsvæðum innan Idlib-héraðs. Mahmoud Albakour flúði frá borginni Saraqib ásamt eiginkonu sinni, börnum og fleirum úr fjölskyldunni. Fjölskylda hans dvelur nú í borginni al-Bab en sjálfur komst hann til Tyrklands eftir ólöglegum leiðum. „Það tók sjö klukkutíma, yfir fjöll. Og þetta er of erfitt fyrir börn og fyrir ólétta eiginkonu mína. Þetta eru gríðarlega erfiðar aðstæður,“ segir Mahmoud. 

Mynd með færslu
 Mynd: Mahmoud Albakour - RÚV
Mahmoud Albakour ásamt börnum sínum.

Hann leitar nú leiða til þess að koma fjölskyldunni í öruggt skjól. Á sama tíma er hugurinn hjá löndum hans sem þurfa enn að þola árásir og stríðsátök. „Ég get ekki verið að biðja um mikið fyrir sjálfan mig á meðan það eru þúsundir sem þurfa meira á hjálp að halda en ég sjálfur. Núna er ég í skjóli á meðan þau eru berskjölduð fyrir sprengjum og loftárárásum,“ segir Mahmoud. 

Landamærin kyrfilega lokuð

Það leynir sér ekki að það er erfitt fyrir hann að tala um aðskilnaðinn við fjölskylduna, enda landamærin við Tyrkland harðlokuð sem stendur og alls óljóst hvenær fjölskyldan getur sameinast á ný. „Ég held að andleg heilsa mín sé á mjög hættulegum stað. Ef þú hugsar um það, að vera sjálfur í skjóli en fólkið þitt undir sprengjum, okkur sem erum hér okkur líður virkilega illa.“

Mynd með færslu
 Mynd: Mahmoud Albakour - RÚV
Eyðilegging stríðsátakanna er augljós.

Mark Lowcock, yfirmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum, segir að ástandið á svæðinu verða sífellt skelfilegra. Á svæðinu dvelja um þrjár milljónir, um helmingur þeirra er fólk sem hefur flúið þangað frá öðrum landshlutum. Sum eru því leggja á flótta í annað, og jafnvel þriðja eða fjórða sinn. Stærstur hluti þeirra 900 þúsund sem eru á vergangi í Idlib eru konur og börn. Flóttamannabúðir á svæðinu eru orðnar yfirfullar og neyðist fólk til þess að sofa úti í vetrarkuldanum. Kuldinn hefur orðið hvítvoðungum og ungum börnum að bana. Hundruð þúsunda hafa flúið að landamærunum við Tyrkland. Þau eru harðlokuð sem stendur og því engin leið fyrir fólk að komast burt frá Sýrlandi. 

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, sagði í sjónvarpsávarpi í dag að baráttunni um Idlib-hérað væri langt frá því að vera lokið en hann hefur heitið að ná til baka öllu því landsvæði sem stjórnvöld hafa misst í borgarastríðinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Mahmoud Albakour - RÚV
Nærri milljón eru á vergangi í Idlib-héraði.