„Nú förum við í stríð við skattsvikarana“

22.06.2017 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkissjóður verður af milljörðum árlega vegna óeðlilegrar verðlagningar í viðskiptum tengdra félaga. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, lýsir yfir stríði gegn skattvikum og ætlar að draga úr notkun reiðufjár.

Verða af allt að sex milljörðum vegna milliverðlagningar

Ráðherra kynnti í morgun niðurstöður tveggja starfshópa, sem hafa síðan í janúar rannsakað annars vegar milliverðlagningu í utanríkisviðskiptum, og hins vegar skattaundanskot og skattsvik. 

Ríkissjóður tapar á hverju ári á milli eins til sex milljarða króna, vegna óeðlilegrar verðlagningar í viðskiptum tengdra fyrirtækja. Í tillögum hópsins kemur fram að auka þurfi eftirlit með öllum tiltækum ráðum, virkja eftirlit með skjölunarskyldu stærri fyrirtækja, og beita sektum ef gögnum er ekki skilað innan tiltekins frests. 

Burt með 10 þúsund króna seðilinn

Hvað viðkemur peningaþvætti, kennitöluflakki og skattaundanskotum, eru ýmsar róttækar breytingar lagðar til, en um 100 milljörðum var skotið undan skatti hér á landi á síðasta ári. Lagt er til að dregið verði markvisst úr noktun reiðufjár. 

Verslunum verði einungis heimilt að taka við rafrænum greiðslum, og vinnuveitendum skylt að greiða laun rafrænt. Þá verði 10 þúsund króna seðillinn tekinn úr umferð og 5 þúsund króna seðillinn hverfi í kjölfarið.

„Það eru ekki margir sem eru með 10 þúsund króna seðla í vasanum. Engu að síður þá eru það helmingurinn af reiðufé í umferð samkvæmt tölum seðlabankans. Þannig að þá spyr maður, hverjir eru það sem eru með alla þessa tíu þúsund kalla,“  segir Benedikt. „Með því að minnka seðlanna sem eru í umferð þá verður óþægilegra að nota þá. En meira máli skiptir hitt að laun séu greidd rafrænt inn á bankareikninga og hitt atriðið, að það sé ákveðið hámark á því hvað megi borga mikið í reiðufé.“

Tillögunum ekki stungið ofan í skúffu

Benedikt segir mikilvægt að tillögunum verði ekki stungið ofan í skúffu og ráðuneytið hefjist strax handa við úrvinnslu þeirra.

 „Nú förum við í stríð við skattsvikaranna. Þar eigum við marga bandamenn. Bæði innan annarra ráðuneyta og eigum góða bandamenn í samtökum Atvinnulífisins og ASÍ, sem voru að kynna skýrslu um kennitöluflakk. Allt skiptir þetta miklu máli. Ég held að allur almenningur sé orðinn þreyttur á því að hér sé einhver forréttindastétt sem getur verið með faktúrufölsun í milliverðlagningu og getur verið að borga svart framhjá kerfinu og skipt um kennitölur eins og sokka,“ segir Benedikt.

„Þannig að ég held að það sé mikill almenningur stuðningur við það að við tökum á þessu, því vegna þess að ef allir standa skil á skatti þá getum við lækkað skatta á almenning.“

 

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi