Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Novomatic lokar hér á landi fyrir árslok

20.01.2019 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Starfsemi hugbúnaðarfyrirtækisins Novomatic Lottery Solutions á Íslandi verður lögð niður undir lok árs. Um 70 manns hafa starfað hjá fyrirtækinu sem hefur aðallega unnið að hönnun hugbúnaðar fyrir lottófyrirtæki. 

Starfsemi Novomatic á Íslandi byggist í grunninn á fyrirtækinu Betware sem austurríska fyrirtækið Novomatic keypti árið 2013. Þeim viðskiptum var þá lýst sem einni stærstu erlendu fjárfestingunni á Íslandi eftir hrun. Starfsstöðin á Íslandi hefur verið rekin í Holtasmára í Kópavogi. Átján starfsmönnum var sagt upp í apríl í fyrra.

Stjórnendur Novomatic á Íslandi hafa ekki getað tjáð sig um málið en vísað fyrirspurnum á forseta fyrirtækisins í Austurríki. Trúnaðarmaður starfsmanna staðfesti við fréttastofu að tilkynnt hefði verið um lokun starfsstöðvarinnar á starfsmannafundi í gær. Starfsfólk hefði þá verið upplýst um að starfsemin á Íslandi yrði lögð niður undir lok árs og starfsfólki boðin aðstoð til að bregðast við breyttum aðstæðum.
 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV