Nota legókubba við hönnun nýs Landspítala

27.09.2015 - 17:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Læknar og hjúkrunarfræðingar hafa notað legókubba til þess að hanna nýjan Landspítala. Þessi nýstárlega aðferð, sem er í fyrsta skipti beitt hér á landi, verður til þess að spítalinn verður betri fyrir sjúklinga og starfsfólk auk þess að verða ódýrari í rekstri, segir bandarískur sérfræðingur.

Læknar, hjúkrunarfræðingar og fleiri starfsmenn Landspítalans, alls 40 manns, hafa síðustu daga verið í nokkuð óvenjulegum stellingum. Þeir hafa nefnilega sett sig í spor arkitekta og tekið þátt í að hanna nýja sameinaða bráðamóttöku sem verður í nýjum Landspítala sem rísa á við Hringbraut í Reykjavík.

Skoða hlutina upp á nýtt
Á einum spítalaganginum er að finna borð með teikningum og svo hefur legókubbum verið raðað upp. „Starfsfólkið hefur fengið tækifæri til að skoða alla hlutana upp á nýtt. Nú er verið að fullnaðarhanna nýjan Landspítala og þá er eins gott að gera það rétt, við fáum bara eitt tækifæri á okkar ferli til að gera þetta,“ segir Ólafur Hersisson, arkitekt hjá Hornsteinum, sem vinnur fyrir Corpus að hönnun spítalans. „Hérna erum við til dæmis að horfa á það hvað væri draumurinn að hafa á þessari nýju legudeild,“ segir Ólafur. 

Með þessari aðferð, sem fundin var upp hjá Toyota, er fyrst hugað að því hvað er best fyrir sjúklinginn. „Hvernig við getum gert það betra og skilvirkara og hvernig húsið getur síðan stutt okkur í vinnunni við að bæta heilsu sjúklinganna okkar,“ segir Guðrún Björg Sigurbjörnsson, hjúkrunarfræðingur og verkefnisstjóri hjá Landspítalanum. 

Þjónustan verði sem best
Chris Backous, hjá Virginia Mason Medical Center í Seattle í Bandaríkjunum, hefur síðustu vikur kennt heilbrigðisstarfsfólki og arkitektum vinnuaðferðina. Hann segir brýnt að greina vel þarfir sjúklinga. Síðan fái hópur starfsmanna frí frá hefðbundinni vinnu til að setjast niður við hönnunina með það að markmiði að þjónustan verði sem best. 

Ólafur segir að aðferðin hafi ekki áður verið notuð hér á landi. „Það er í raun og veru verið að vinna frábæra vinnu hérna, alveg einstaka vinnu í að forgreina og forrýna það sem á að fara inn í lokahönnunina,“ segir Ólafur. 

Fólk sem gegnir ólíkum störfum hefur tekið þátt í hönnuninni. „Niðurstaðan verður margfalt betri,“ segir Guðrún Björg. Starfsfólkið hafi bent á ákveðna þætti og hluti sem þurfi að vera til staðar svo það þurfi ekki að hlaupa jafnmikið. „Og með því að einbeita okkur að því að draga úr slíkri sóun þá drögum við úr kostnaði við rekstur spítalans,“ segir Backous. 

Greint er frá vinnuferlinu í pistli forstjóra Landspítalans og á vef nýs Landspítala.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi