Norwegian segir upp 90% starfsfólks

16.03.2020 - 21:15
Mynd með færslu
 Mynd: Norwegian Air Shuttle
Gripið hefur verið til umfangsmikilla ráðstafana hjá norska lággjaldaflugfélaginu Norwegian vegna samdráttar sem rekja má til ferðatakmarkanna vegna útbreiðslu COVID-19. Um níutíu prósent starfsfólks flugfélagsins má búast við uppsögn og 85 prósent ferða flugfélagsins hafa verið felldar niður.

Haft er eftir Jacob Schram, framkvæmdastjóra Norwegian, í tilkynningu á vef félagsins, að staðan í flugiðnaðinum í heiminum sé fordæmalaus. Nær allar vélar félagsins verði kyrrar á jörðu niðri næstu vikur. Yfirvöld í nokkrum Evrópuríkjum hafi lýst því yfir að tryggt verði að flugfélögin komist yfir þennan erfiða hjalla og geti haldið starfsemi sinni áfram þegar gangur lífsins komist í eðlilegt horf á ný. Stjórnendur Norwegian fagna því að slíkt eigi við um stjórnvöld í Noregi. 

Fjöldi flugferða hefur verið felldur niður og ætlar fyrirtækið að vinna náið með stjórnvöldum að því að finna aðrar ferðir fyrir strandaglópa. Farþegar fái tölvupóst eða skilaboð í síma um slíkt. 

7.300 starfsmönnum verður sagt upp, það eru um 90 prósent allra þeirra sem vinna hjá flugfélaginu. Flugmenn, flugfreyjur og flugvirkjar verða meðal þeirra sem missa vinnuna. Hlutfallið verður misjafnt milli landa. Haft er eftir framkvæmdastjóranum í tilkynningunni að þessar ráðstafanir séu tímabundnar og að hann voni að hægt verði að ráða sem flesta aftur. 

Norwegian er fimmta stærsta lággjaldaflugfélag í heimi, með 160 vélar í flota sínum. 36 milljónir farþega ferðuðust með Norwegian í fyrra. Áfangastaðirnir voru yfir 150; í Evrópu, Norður-Ameríku, Miðausturlöndum, Taílandi og í Norður- og Suður-Afríku. Flugfélagið hefur boðið upp á ferðir frá Íslandi, meðal annars til Óslóar, Tenerife og Alicante. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi