Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Norskir sjómenn lágu á hleri

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

Norskir sjómenn lágu á hleri

25.12.2017 - 18:52

Höfundar

Norskir sjómenn sem stunduðu síldveiðar á Íslandsmiðum lágu gjarnan á hleri þegar þeir íslensku ræddust við í gegnum talstöðvar og þá gat íslenskukunnátta hjálpað þeim að finna torfur. Þetta kemur fram í rannsókn Oves Orviks, norsks málfræðings sem hefur safnað og vill vernda orðaforða fólks sem býr við sjóinn í Norður-Noregi og á Austfjörðum.

 

Sædrífa, andróður, olíuklæði, dixill, sigurnagli eða segulnagli, útræði, að spyrða og splæsa. Þessi orð heyrast sjaldan en eru hluti af hverfandi tungutaki sem lýsir lífi við ströndina. Ove Orvik kennari frá Vestarålen í Noregi hefur unnið að gerð norskra héraðsorðabóka, bæði þar og í Romsdal. Hann hefur tekið eftir því að tungutak strandbúa eða Kystspråk er hverfandi og það sama virðist vera uppi á teningnum á Íslandi, að minnsta kosti á Austfjörðum, ef marka má rannsókn sem hann kynnti hér á landi fyrr í vetur. 

Sædrífa kemur þegar vindurinn er svo sterkur að sjórinn fýkur úr bárunum og það lítur næstum því út eins og snjór. Andróður er þegar róa þarf á móti vindi. 

 Ég tel að þessi orð segi sögu um líf fólks áður fyrr og hluta til enn í dag. Því er grátlegt ef orðin hverfa úr málinu. Til voru orð sem lýstu því sem var mikilvægt en yngri kynslóðir þekkja þau ekki. Því er þetta arfur sem við ættum kannski að vegsama.

Eitt og annað áhugavert hefur komið í ljós við samanburð á orðaforða strandbúa.

Norska orðið yfir torfu er stím, margir fiskar sem synda saman, þegar norskir fiskimenn voru úti fyrir Austfjörðum á síldveiðum innan um íslenska báta, þá hlustuðu þeir á talstöðina, ef orðið torfa koma fyrir eða stórar torfur þá héldu þeir að síldin væri fundin og að þeir ættu að elta íslensku bátana.