Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Norskir fjölmiðlar fjalla um leitina í Núpá

13.12.2019 - 08:44
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Norskir fjölmiðlar hafa fjallað um leitina í Núpá. Í fjölmiðlum þar ytra er pilturinn sagður hálfnorskur. Þar kemur einnig fram að norska utanríkisráðuneytið hafi verið í sambandi við íslensk yfirvöld vegna leitarinnar.

Haft er eftir starfsmanni utanríkisráðuneytisins á norska miðlinum TV2 að ráðuneytið viti af leitinni og fylgist með en málið sé alfarið í höndum lögreglunnar á svæðinu.

Unglingspiltur féll í Núpá í Sölvadal í Eyjafirði á miðvikudagskvöld. Hans hefur verið leitað síðan. Pilturinn var að aðstoða bónda á bæ í dalnum við að koma á rafmagni. Skilyrði til leitar við hafa verið mjög slæm.  Aftakaveður hefur verið og krapi í ánni gerir leitina enn vandasamari. Leit heldur áfram í dag og verður þungi settur í hana þegar birtir. Lágmarksaðgerðir voru í nótt þar sem fylgst var með ánni við brúna en engin leit  að öðru leyti. Nóttin var nýtt til að skipuleggja daginn. Margt leitarfólk fékk hvíld í nótt og verður sent til leitar í dag, tvíeflt.

Reiknað er með að veður verði stilltara í dag en undanfarna daga en frost verður mikið. Þrátt fyrir að óveðrinu sé að slota er enn fjarskiptalaust og rafmagnslaust á nokkrum stöðum á svæðinu.