Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Norska ríkisstjórnin fær aukið vald

22.03.2020 - 12:32
epa08144899 Norwegian Prime Minister and leader of the Conservative Party, Erna Solberg, speaks at a media conference after the resignation of populist coallition partner Progress Party (Fremskrittspartiet) from Norway's four party government coalition, in Oslo, Norway, 20 January 2020. The move will cause Prime Minister Solberg to lose her parliamentary majority. The populist Progress Party's resignation came after a controversy over the repatriation of a so-called 'IS bride' and her children to Norway.  EPA-EFE/TERJE BENDIKSBY NORWAY OUT
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. Mynd: EPA-EFE - NTB SCANPIX
Norska þingið samþykkti í gær að heimila ríkisstjórninni að setja lög án aðkomu þingsins þegar sérstakar aðstæður krefjast þess vegna Covid 19 faraldursins. Heimildin gildir í mánuð með ákveðnum fyrirvörum, meðal annars getur þingið afturkallað lögin síðar. Ríkisstjórnin hafði krafist töluvert víðtækari heimildar.

Norska ríkisstjórnin lagði upphaflega til að hún fengi í raun fullt vald í sex mánuði til að breyta lögum - og gæti þar með gert það framhjá þinginu. Rökin fyrir því voru meðal annars þau að ríkisstjórnin þyrfti að geta gripið til neyðarráðstafana hratt og örugglega, til dæmis ef við blasti skortur á starfsfólki við grunnþjónustu.  Þar sem stjórnin er minnihlutastjórn þurfti liðsinni annarra flokka til að fá þetta samþykkt á norska stórþinginu. Það tókst ekki. Hinum flokkunum fannst tillagan ganga of langt.

Tillagan sem var á endanum samþykkt var töluvert vægari. Heimild ríkisstjórnarinnar gildir aðeins í einn mánuð í stað sex, og hana væri aðeins hægt að virkja ef þingið væri óstarfhæft, eða að svo mikið lægi á að gera nauðsynlega breytingu að ekki vinnist tími til að kalla þingið saman. Þá þarf ríkisstjórnin ekki að hafa EES-samninginn eða alþjóðasáttmála til hliðsjónar þegar þau gera sínar ráðstafanir. Þingið getur hins vegar dregið lögin til baka ef þriðjungur þingmanna vill það.

Björnar Moxnes leiðtogi vinstri flokksins Rautt hafði á orði þegar upphaflega tillagan var lögð fram að með henni yrði Erna Solberg forsætisráðherra fyrsti einræðisherra Noregs á friðartímum í rúm tvö hundruð ár. Solberg þvertók fyrir að tillagan hefði verið tilraun til einhvers konar valdaráns að hálfu ríkisstjórnarinnar, en taldi hins vegar líklegt að það þyrfti að framlengja þessa mánaðarlöngu heimild.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV