Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Norsk samtök bundu vonir við íslenskt nei

02.09.2019 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Formaður norsku samtakanna Nei til EU segir að þau hafi bundið vonir við að Alþingi Íslands myndi hafna innleiðingu þriðja orkupakkans. Það hefði komið í veg fyrir að orkupakkinn tæki gildi í Noregi. Norska þingið samþykkti innleiðingu orkupakkans í fyrra. Tilskipunin gat þó ekki tekið gildi fyrr en Ísland hafði samþykkt hana. Orkumálaráðherra Noregs er ánægður með ákvörðun Íslands og fagnar henni.

Alþingi samþykkti með yfirgnæfandi meirihluta innleiðingu þriðja orkupakkans með 46 atkvæðum gegn 13 í dag. 

Kjell-Børge Freiberg, orkumálaráðherra Noregs, segir í samtali við NTB-fréttaveituna að orkupakkinn sé mikilvægur fyrir norrænt samstarf á sviði orkumála.  Án hans hefði orðið erfitt fyrir Noreg að vinna með Svíum, Dönum og Finnum.

Katherine Kleveland, formaður samtakanna Nei til EU, er á öðru máli. Hún segir að samtökin hafi gert sér vonir um að Íslendingar myndu hafna orkupakkanum og koma þannig í veg fyrir að hann tæki gildi í Noregi.  Hún lýsir yfir vonbrigðum sínum með Alþingi og segir gjá hafa myndast milli þings og þjóðar. „Skoðanakannanir hafa sýnt mikla andstöðu við orkupakkann á Íslandi,“ segir Kleveland.

Hún hefur ekki gefið upp alla von því hún telur að norska þingið hafi ekki farið að lögum þegar orkupakkinn var samþykktur á norska stórþinginu.  Hún ætlar með málið fyrir dóm og verður það þingfest þann 23. september.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, gagnrýndi um miðjan síðasta mánuð afskipti norskra stjórnmálaafla af umræðunni á Íslandi um þriðja orkupakkann. Hann sagði hagsmuni Íslands ekki vera þar í forgrunni.  Þá hefur Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, sakað Nei til EU-samtökin um að mata tengiliði sína á Íslandi á röngum upplýsingum um afleiðingar orkupakkans.