Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Norrænir þjóðernissinnar ferðast um landið

06.09.2019 - 17:46
Mynd með færslu
 Mynd: Hafþór Pálsson
Lögreglan hafði afskipti við fólk á Akranesi sem kennir sig við Norðurvígi og Norrænu mótstöðuhreyfinguna í gær. Þau eru nú á ferð um landið. Þau stóðu fyrir framan verslunarkjarna á Akranesi þar sem lögregla bað þau um að fara. Fánaberarnir birtust fyrst á Lækjartorgi í gærdag.

Hópurinn er blanda af Íslendingum sem eru hluti af íslensku samtökunum Norðurvígi, og öðrum einstaklingum frá Norðurlöndunum sem eru hluti af Norrænu mótstöðuhreyfingunni.

„Þetta voru átta til tíu sem komu á lítilli rútu og voru með fána og bæklinga. Verslunareigendur óskuðu eftir því að þeir voru færðir burt,“ sagði Ásmundur Kristinn Ásmundsson, aðstoðarlögreglustjóri á Vesturlandi.

Ásmundur segir lögregluþjóna hafa rætt við hópinn sem færði sig. Þá gengu þau í hús í bænum, dreifði einblöðungum með pólitískum skilaboðum og festu límmiða á umferðarskilti. Þau stóðu einnig fyrir framan verslanir í Borgarnesi og sögðust vera á leið um landið.

Bönnuð í Finnlandi

Norðurvígi eru íslensk samtök sem kenna sig við Norrænu mótstöðuhreyfinguna. Norræna mótstöðuhreyfingin starfar í öllum Norðurlöndunum. Hún var bönnuð með lögum í Finnlandi árið 2017. Þá sagði í úrskurði dómara að knýjandi, samfélagsleg þörf væri á því að leggja niður samtök á borð við Norrænu mótstöðuhreyfinguna. Hún ástundi hatursáróður og upphefji árásagirni.