Norræna lokar fyrir farþegaflutninga vegna COVID-19

13.03.2020 - 07:47
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Farþegaferjan Norræna hefur lokað fyrir það að farþegar geti farið með skipinu milli Íslands, Færeyja og Danmerkur. Áfram verður þó siglt á milli með vörur. Þetta er gert vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar.

Í tilkynningu á heimasíðu Smyril Line kemur fram að Norræna hafi siglt frá Færeyjum til Danmerkur í gær og að ferð til baka sé á áætlun á morgun. Hins vegar mun skipið ekki halda áfram með farþega til Íslands. Farþegar sem eru ekki á heimleið heldur að hefja ferðalag verður raunar ekki leyft að sigla með skipinu.

„Allir viðskiptavinir sem ekki þurfa að ferðast verður ekki hleypt með Norrænu,“ segir á heimasíðunni. Linda Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi, segir í Morgunblaðinu í dag að Norræna komi næst til Seyðisfjarðar á þriðjudag, en verði aðeins með vörur.

Ákvörðun um að loka fyrir farþegaflutninga var tekin í kjölfar ákvörðunar danskra stjórnvalda að loka skólastarfi og aflýsa öllum fjöldaviðburðum í landinu vegna COVID-19 faraldursins.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi