Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Nornaseiður Miles Davis fagnar fimmtíu ára afmæli

Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons

Nornaseiður Miles Davis fagnar fimmtíu ára afmæli

29.02.2020 - 10:04

Höfundar

Í mars verða fimmtíu ár liðin síðan hljómplatan Bitches Brew með bandaríska tónlistarmanninum og trompetleikaranum Miles Davis kom út. Platan kom út þann 30. mars árið 1970 og markaði tímamót á löngum ferli Davis og raunar í gjörvallri sögu djasstónlistar. Þeir sem hlustuðu á Bitches Brew hugsuðu með sjálfum sér: Svona hljómar framtíðin.

Tónlistarmaðurinn Eyþór Gunnarsson er þeirrar skoðunar að Bitches Brew sé tímamótaverk fyrir margra hluta sakir, djasstónlistin varð ekki söm eftir hana. Miles Davis, einn merkasti djasstónlistarmaður 20. aldar, hafi haft ótrúlegan hæfileika til að endurnýja sig, og það sé nákvæmlega það sem hann gerir á Bitches Brew. „Miles var náttúrlega ofboðslega áhrifamikill, ekki síst fyrir það að hann var svo flínkur að velja sér mannskap til að vinna með og hann skipti nokkrum sinnum um stefnu á ferlinum, og þarna þegar þessi plata kemur út er hann í þeirri stöðu að hann er kominn í einhvers konar miðaldurskrísu. Hann hafði verið aðalmaðurinn á sjöunda áratugnum, og líka sjötta, með sína stóru kvintetta með Bill Evans, John Coltrane, Cannonball Adderly og þeim öllum, og svo seinna með Herbie Hancock og Wayne Shorter, hann hafði verið aðalmaðurinn.“

Leit að nýjum og óvæntum leiðum

Bitches Brew var hljóðrituð á einungis þremur dögum í hljóðveri Columbia-útgáfunnar í New York í ágústmánuði árið 1969. Miles Davis og félagar fóru í nýjar og óvæntar áttir, blönduðu saman tilraunakenndri djasstónlist, rokki og síkadelíu í óheftum spuna, útkoman varð mikill og dáleiðandi seiður. Þegar platan var tekin upp var Davis þeirrar skoðunar að hann yrði að gera eitthvað róttækt til að endurnýja sig og sína tónlist, leita að nýjum tjáningarleiðum. „Þarna er hann farinn að feida, þarna er rokkið komið og eitthvað allt annað að gerast, en á þessum tíma er hann með unga eiginkonu, Betty Mabry, og sagan segir að hún hafi kynnt hann fyrir Jimi Hendrix, sem hafði einhverra hluta vegna alveg farið framhjá honum fram að þeim tíma, þarna verður hann mjög uppnuminn af því, og sér að tíðarandinn er að fara þangað.“

Mynd með færslu
Umslag plötunnar var mjög í anda síkadelíunnar og skynvillulyfja áratugarins sem á undan hafði farið.

Miles Davis fékk í kjölfarið unga tónlistarmenn til liðs við sig. Með honum á Bitches Brew spila meðal annarra Wayne Shorter, Joe Zawinul, Chick Corea, John McLaughlin, Dave Holland og Jack DeJohnette, menn sem áttu eftir að setja sterkan svip á djass næstu ár og áratugi. „Hann hafði einstakt lag á því að velja einhverja spútnika, menn sem höfðu einhvern galdur. Það var einn af hans stóru hæfileikum að setja saman bönd og gefa mönnum svo mátulega frítt spil til að það gerðist einhver galdur.“

Bræðingur verður til

Hálfu ári áður en upptökur á Bitches Brew fóru fram hafði Miles tekið upp plötuna In a Silent Way, sem kom út í júlí árið 1969, rafmagnaður hljóðheimur þeirrar plötu gaf að einhverju leyti tóninn fyrir Bitches Brew, sem sló rækilega í gegn. Platan fékk reyndar blendnar viðtökur hjá gagnrýnendum á sínum tíma, þótt hún hafi selst vel, en segja má að þarna hafi orðið til ný tónlistarstefna sem kennd er við fusion eða bræðing. „Þarna er hann að bræða saman rokkið og rafmagnshljóðfærin og svo þetta impróvíseraða element úr djassi.“

Miles Davis hafði ekki fullmótaðar hugmyndir um það hvað hann vildi nákvæmlega gera í Columbia hljóðverinu í ágúst árið 1969, hann vissi bara hvað hann vildi ekki gera, eins og gítarleikarinn John McLaughlin minnir á í nýlegu viðtali. Hann vildi gera tónlist sem væri ólík öllu því sem hann hafði gert áður, og það var mikið, hann vildi með öðrum orðum ekki endurtaka sig. „Hann kom með mjög takmarkaðar tónsmíðar, lagði bara á borðið eitthvað mjög opið.“ Eyþór Gunnarsson segir að Bitches Brew hafi verið mikil nýjung á sínum tíma, djassinn hafi þá ekki verið lengur við alþýðuskap, rokkið hafði komið í staðinn. Bitches Brew seldist þó mjög vel þrátt fyrir að vera mjög óhefðbundin, tilraunakennd og raunar óaðgengileg.

„Þetta færði djassinn nær unga fólkinu,“ segir Eyþór Gunnarsson sem er þeirrar skoðunar að Bitches Brew sé enn mjög fersk, enda hefur platan haft gríðarleg áhrif á tónlistarmenn í hinum ýmsu greinum, og hefur enn, fimmtíu árum eftir útkomu hennar. „Þetta er alveg hipp og kúl ef maður hlustar á þetta í dag, það er margt í þessu sándi og þessu grúvi sem rímar bara ágætlega við daginn í dag, hipphoppið og fleira.“

Rætt var við Eyþór Gunnarsson í Víðsjá.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Nýjar“ upptökur með kvartett Johns Coltrane

Tónlist

Svívirðilega heiðarleg söngkona lést úr sukki

Tónlist

Hljómplata sem markaði vatnaskil

Tónlist

Er Herbie Hancock faðir raftónlistar?