
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði ráðstefnugesti, og sagði tíma kominn til aðgerða vegna hlýnunar jarðar. Þá hvatti hún til þess að norðurheimskautið yrði vettvangur alþjóðlegrar samvinnu til að stuðla að umhverfisvernd.
Þetta sé einungis hægt að gera ef þjóðir skuldbinda sig til þess að vinna saman, og til þess þurfi að tryggja að heimskautasvæðið verði vopnlaust, sagði Katrín.
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, segir ljóst að Norður-heimskautið sé orðinn alþjóðavettvangur. Fundir um málefni Norðurslóða séu haldnir víða um heim, meðal annars í Kína og Suður-Kóreu. Þá sé það merki um áhuga alþjóðasamfélagsins að utanríkisráðherra Japans sé einn af aðalræðumönnum ráðstefnunnar. Þetta sagði Ólafur Ragnar í setningarræðu Arctic Circle í Hörpu í dag.