
Norðurlöndin hætti að gorta
Thunberg tilkynnti á Instagram-síðu sinni í gær að hún hefði hlotið umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. Um leið og hún þakkaði heiðurinn, sem vissulega sé mikill, afþakkaði hún verðlaunin og verðlaunaféð sem hljóðar upp á 500 þúsund sænskar krónur, sem nemur 6,4 milljónum króna.
Greta Thunberg segir að loftlagshreyfingin þurfi ekki á fleiri verðlaunum að halda heldur þurfi stjórnmálamenn og almenningur að fara að taka mark á fyrirliggjandi staðreyndum. „Norðurlöndin hafa frábært orðspor þegar kemur að loftlags- og umhverfismálum. Það skortir ekkert á að það sé gortað yfir því. Það skortir ekki falleg orð. En þegar kemur að raunverulegum útblæstri og raunverulegu vistspori á hvern haus, ef við tökum neyslu, innflutning, flug og skipaiðnað, þá blasir við allt önnur mynd,“ skrifar hún.
Lítið á bak við fögur fyrirheit
Thunberg segir að Svíar lifi eins og þeir hafi fjórar plánetur til umráða og vísar þar til WWF og Global Footfrint Network. Það sama eigi við um öll Norðurlöndin, þau ríki sem eru í aðstöðu til að leggja mest af mörkum til umhverfismála. Til að mynda hafi Norðmenn gefið út metfjölda olíuvinnsluleyfa og nýjasta olíuvinnslusvæðið geti framleitt olíu og gas til næstu 50 ára. „Gjáin á milli þess sem vísindin segja að þurfi til þess að takmarka hlýnun jarðar við 1,2 eða jafnvel 2°C og stjórnmálanna sem stýra Norðurlöndunum er risavaxin. Og það eru engin merki þess að nauðsynlegar breytingar séu framundan.“