Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Norðurlandameistarar í ólöglegu niðurhali

11.12.2012 - 19:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslendingar hlóðu niður tónlist eða nálguðust hana stafrænt án þess að greiða fyrir hana fyrir 1,8 milljarða íslenskra króna 2011. Þetta eru um 908 þúsund þrettán laga plötur. Ólíkt öðrum Norðurlandaþjóðum kaupa Íslendingar hins vegar ekki tónlist af netinu.

Samkvæmt nýjum norrænum hagtölum haga Íslendingar tónlistarkaupum sínum allt öðruvísi en hinar Norðurlandaþjóðirnar. Íslendingar keyptu tónlist fyrir um 700 milljónir íslenskra króna  í fyrra en aðeins þrjú prósent hennar var hlaðið niður eða streymt gegnum netið með löglegum hætti. Í Svíþjóð er þetta hlutfall um fimmtíu prósent og í Danmörku fjörutíu.  

„Ég er ansi hræddur um að við séum hálfgerðir Norðurlandameistarar í ólöglegu niðurhali,“ segir Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS, samtaka myndrétthafa.

Snæbjörn segir að samkvæmt könnun sem Capacent gerði á neyslu Íslendinga á tónlist og kvikmyndum hlóðu Íslendingar ólöglega 565 þúsund þrettán laga plötum árið 2011. 343 þúsund slíkar plötur voru fengnar á stafrænu formi án þess að greitt væri fyrir þær. Samtals voru þetta því 908 þúsund þrettán laga plötur. Sé miðað við að hver plata á netinu eða úti í búð kosti að meðaltali um tvö þúsund krónur er heildarverðmætið þessara platna um 1,8 milljarðar.

Snæbjörn segir að vissulega geri rétthafar sér grein fyrir því að niðurhalið skili sér ekki allt í viðbótarsölu. Könnun Capacent leiddi í ljós að 16,8 prósent hefðu keypt efnið ef það hefði ekki verið í boði án þess að greiða fyrir það. Sem þýðir að tónlistariðnaðurinn verður árlega af um 307 milljónum króna.

Snæbjörn segir að íslenskir tónlistarunnendur beri oft fyrir sig að þeir hafi ekki aðgang að sömu verslunum og aðrir Norðurlandabúar, eins og Spotify og i-Tunes. Snæbjörn telur að þær afsakanir haldi ekki vatni; hér á landi bjóði tonlist.is og gogoyoko uppá sambærilega þjónustu og tónlistin þar sé oftar en ekki á lægra verði.