
Norður-Makedónía komin á kortið
Raunar nær landsvæði það sem til forna hét einu nafni Makedónía yfir gríska héraði, þjóðríkið sem nú hefur fengið nafnið Norður-Makedónía, lítinn hluta Albaníu og dágott svæði í Búlgaríu líka, auk smáspildu í Kósóvó. Makedónar hafa lengi sóst eftir aðild að Evrópusambandinu og Nató, en Grikkir hafa beitt neitunarvaldi vegna nafnadeilunnar.
Gríska þingið þarf líka að samþykkja hið nýja nafn nágrannaríkisins áður en sú deila verður endanlega afgreidd, en þjóðernissinnar í báðum ríkjum eru mótfallnir ríkjaheitinu Norður-Makedónía. Alexis Tsipras og stjórn hans dugar þó einfaldur meirihluti þegar þar að kemur. Tsipras sagði í sjónvarpsviðtali fyrr í vikunni að hann væri afar bjartsýnn á að það tækist.
Tryggja réttindi albanskra borgara og sverja af sér útþenslustefnu
Nafnbreytingin er ekki eina stjórnarskrárbreytingin sem samþykkt var á Makedóníuþingi í gærkvöld. Að kröfu nágrannanna í Albaníu var nefnilega einnig bætt inn í hana ákvæðum um að Norður-Makedónía myndi ekki gera nokkurt tilkall til landsvæða utan núverandi landamæra sinna.
Mikill meirihluti Makedóna - eða Norður-Makedóna öllu heldur - er af slavnesku bergi brotinn en um fjórðungur þeirra er af albönskum ættum. Til að tryggja nauðsynlegan, aukinn meirihluta fyrir breytingunum samdi stjórn Zorans Zaevs við fulltrúa albanska minnihlutans á Makedóníuþingi um að tryggja aukin réttindi þeirra fólks í landinu. Auk Slava og Albana eru það einkum Serbar og Róma-fólk sem byggir þetta fyrrum Júgóslavíulýðveldi.