Norðmenn hafa ákveðið að loka höfnum og flugvöllum. Erna Solberg, forsætisráðherra landsins, greindi frá þessu í dag. Ákvörðunin tekur gildi á mánudaginn. Áður höfðu Norðmenn ákveðið að meina öllum öðrum en Norðurlandabúum að koma til landsins.
Solberg tekur fram að Norðmenn sem staddir eru erlendis fái að koma heim. Solberg hefur líka beðið norska herinn um að framfylgja landamæraeftirliti
Solberg segir að eftir sem áður verði fraktflutningar til landsins. „Við verðum að fá lífsnauðsynlegar vörur eins og lyf og matvörur. Og við verðum að geta flutt út vörur,“ segir Solberg.
Solberg segir í ávarpi, sem NRK vísar til, að síðustu dagar hafi verið mjög sérstakir, bæði fyrir sig og örugglega líka fyrir aðra. Nú eru eitt þúsund staðfest tilfelli í Noregi og tveir hafa látist af völdum COVID-19 veirunnar.