Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Norðlensk söfn draga að ferðamenn

22.11.2019 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd: Síldarminjasafn Íslands
Ferðamenn, innlendir og erlendir, sem sækja söfn á Norðurlandi eru ánægðir með söfnin. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem Rannsóknarmiðstöð ferðamála gerði að beiðni Markaðsstofu Norðurlands.

97% þeirra sem svöruðu sögðust annað hvort vera ánægð eða mjög ánægð með heimsóknir á söfnin. 90% sögðust ætla að mæla með því við fjölskyldu og vini að þeir gerðu slíkt hið sama. 

Í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands kemur fram að niðursöðurnar séu ánægjulegar fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi, góð reynsla ferðamanna sé lykilatriði í þróun greinarinnar.

Þá kemur fram í skýrslu frá Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónustunnar að ferðamenn á Norðurlandi séu líklegri til að skoða söfn eða sýningar en hinn almenni ferðamaður á Íslandi. Því sé hægt að leiða líkur að því að þess háttar afþreying sé ein af ástæðum þess að Norðurland verði fyrir valinu sem áfangastaður.

Í skýrslunni kemur líka fram að ferðamenn á Norðurlandi séu líklegri til að skoða kirkjur og fræga sögustaði.