Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Norðanverðir Vestfirðir á varaafli

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Norðanverðir Vestfirðir fá rafmagn úr varaflsvélum á meðan óveðrinu stendur. Elías Jónatansson, orkubússtjóri, segir að Landsnet hafi tekið þá ákvörðun í samráði við Orkubú Vestfjarða að keyra dísilvélar á Bolungarvík af stað í morgun, áður en rafmagni slægi út.

„Menn voru nokkuð vissir um að það myndi gerast og það var ákveðið að setja varaaflið inn áður,“ segir hann.

Breiðadalslínu sló svo út upp úr ellefu í morgun. Ekki varð vart við það fyrst varaafl var þegar komið á. Elías segir vélarnar framleiða nægt rafmagn og ekki sé þörf á að skammta því. Þær verða í gangi þar til veðrinu slotar.

Einnig er kyndingu á hitaveitunni búið að slá út, svo að hitaveita á norðanverðum Vestfjörðum keyrir á olíukötlum. Elías segir fólk ekki hafa orðið vart við það heldur.