Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Níundi smitaði Íslendingurinn hafði verið í Austurríki

03.03.2020 - 08:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Níundi Íslendingurinn sem smitaður er af COVID-19 Kórónaveirunni hefur nýlega verið í Austurríki. Líkur eru á að tugir til viðbótar þurfi að fara í sóttkví. Þetta staðfestir Víðir Reynsisson hjá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra í samtali við fréttastofu.

Níu hafa greinst smitaðir af  COVID-19 veiruna hér á landi, fimm konur og fjórir karlar. Í gær var greint frá því að eitt af þeim smitum væri ekki tengt Ítalíu, þar sem flest smit í Evrópu eiga upptök sín. Átta af níu komu með flugi frá Veróna á Ítalíu á laugardag en ekki var vitað um uppruna níunda smitsins. Nú hafa ferðir þess einstaklings verið raktar. 

„Já hann var í Austurríki og kom heim til Íslands á sunnudaginn. Við vorum að vinna í þessu fram á nótt og höldum áfram í dag að vera í samskiptum við alla sem við teljum þurfa að tala við vegna hugsanlegrar sóttkvíar sem er tengt því.“

Tugir gætu bæst í hóp þeirra 300 sem nú eru í sóttkví vegna þessa. Víðir segir að þó vöxturinn hafi verið hraður frá því að fyrsta smit greindist hér á landi á föstudag  sé mikilvægt að benda á að enginn smit séu innanlands. 

„Þetta eru allt bara aðilar sem voru að koma að utan og svo sem eins og við gerðum ráð fyrir þegar við vorum að skoða okkar plön fyrir þetta, þá ferðast Íslendingar mjög mikið og þar af leiðandi var þetta svona hluti af því sem við sáum fyrir okkur að gæti gerst.“

Víðir segir að von sé á niðurstöðum úr sýnum sem eru til frekari skoðunar á milli klukkan tvö og fjögur í dag.