Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Níu dauðsföll barna rakin til Ikea kommóða

07.01.2020 - 07:48
Erlent · Bandaríkin · Ikea
Mynd með færslu
 Mynd:
Sænski húsgagnaframleiðandinn Ikea hefur samþykkt að greiða foreldrum bandarísks barns, sem lést árið 2017, andvirði 5,5 milljarða íslenskra króna í bætur. Drengurinn, sem var tveggja ára, lést þegar kommóða féll ofan á hann. Frá þessu er greint á vef USA Today. 

Lögmenn foreldra drengsins telja að þetta sé hæsta bótafjárhæð sem samið hefur verið um vegna andláts barns í sögu Bandaríkjanna. Upphæðin er þrefalt hærri en Ikea greiddi árið 2016 þegar rösklega sex milljörðum króna var skipt á milli þriggja fjölskyldna. 

Joleen Dudek, móðir Josefs, segir að foreldrunum hafi aldrei dottið í hug að tveggja ára gamalt barn gæti velt við kommóðu með þeim afleiðingum að barnið kafnaði. Síðar hafi þau komist að því að kommóðan var gölluð og að hið sama hefði komið fyrir aðra drengi. 

Ikea staðfesti við Usa Today í gær að samið hefði verið um bæturnar og vottaði fjölskyldu drengsins samúð sína í yfirlýsingu. USA Today segir að níu dauðsföll megi rekja til kommóða frá Ikea og jafnframt nokkur önnur slys. Í mörgum tilfellum hafa slysin orðið þegar barn tosar í kommóðuskúffu og kommóðan steypist fram fyrir sig. 

USA Today segir að Ikea hafi innkallað 17,3 milljónir kommóða árið 2016, þar á meðal Malm kommóðuna sem féll á Jozef litla. Milljónir slíkra kommóða sé í notkun í dag. Fyrirtækið hefur samþykkt að teygja sig lengra til viðskiptavina í innköllun á umræddum kommóðum. 

Skjáskot úr forvarnarmyndskeiði IKEA, um að veggfesta eigi kommóður öryggis vegna.
 Mynd: - - IKEA
Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV