Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Níræður öldungur þýðir heimsbókmenntir

Mynd: RÚV / RÚV

Níræður öldungur þýðir heimsbókmenntir

02.02.2017 - 15:37

Höfundar

Einhver mikilvirkasti þýðandi bókmennta á íslensku er Sigurjón Björnsson, prófessor emeritus í sálfræði. Sigurjón er níræður, þýðir með penna en slær textann síðan inn í tölvu. Nú fyrir jólin kom út eftir hann ævisaga Balzacs eftir Stefan Zweig, en hann heldur ótrauður áfram að þýða og er nú að fást við skáldsögur eftir sjálfan Balzac.

Sigurjón þýðir jöfnum höndum úr þýsku, frönsku og forngrísku. Hann byrjaði á því að þýða bækur eftir Sigmund Freud, en eftir að hann fór á eftirlaun tók hann til við að þýða úr grísku, fyrst rit Aristótelesar Um sálina, en síðan Sögu Pelópseyjarstríðsins eftir Þúkýdídes og Helleníku eftir Xenófón. Þetta eru tvö höfuðverk grískrar sagnaritunar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Sigurjón segir að þýðingarnar gefi honum tækifæri til að liggja yfir íslenskunni sem hann segir að sé gimsteinn Norðurlanda.

„Við eigum þennan frábæra blettlausa gimstein, sem íslenskan er þegar hún er vel gerð, vel skrifuð í höndum manna. Ég er ekki að segja að ég sé sá maður, en ég geri eins vel og ég get. Og ég hef áhyggjur af því hvað við förum illa með þessa arfleifð okkar. Ég verð að segja og getur vel verið að það kallist hroki og merkilegheit eða þjóðrembingur, en eiginlega eina afsökun Íslendinga fyrir að hafa haldið út á þessu skeri í þúsund ár, er að við eigum þetta tungumál.“

Síðustu tvær bækur sem hafa komið út í þýðingum Sigurjóns eru eftir Stefan Zweig, ævisaga Balzacs, eins og áður segir, og ævisaga húmanistans Erasmusar frá Rotterdam. Sigurjón telur að friðarsinninn Erasmus geti verið mikilvægur fyrir samtíð okkar, en hann segist vera undrandi á því hversu Balzac er lítt þekktur á Íslandi, enda er hann einn mesti sagnameistari í evrópskum bókmenntum. Sigurjón segist hafa lokið við að þýða eftir hann hina miklu skáldsöguna Père Goriot, en hún er ekki enn komin út.

Rætt var við Sigurbjörn Björnsson í Kiljunni.