Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Niðurstaðan vekur furðu

15.09.2019 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd:
Samkeppniseftirlitið hefur lagt blessun sína yfir samstarfssamning Eimskips og grænlenska ríkisskipafyrirtækisins Royal Arctic Line. Helsti keppinautur Eimskips segir ákvörðunina án fordæma og til þess fallna að styrkja enn frekar markaðsráðandi stöðu Eimskips.

Samstarfssamningurinn gerir íslenska og grænlenska skipafélaginu kleift að skipta með sér plássi í skipum sínum á siglingaleiðinni milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Skandinavíu. Að mati Samkeppniseftirlitsins er samkomulagið til hagsbóta fyrir íslenska neytendur þar sem hægt verður að bjóða upp á vikulegar áætlunarsiglingar milli landanna á sama tíma og kostnaður minnkar vegna aukinnar stærðarhagkvæmni. Samningurinn komi aukinheldur til með að auka samkeppni á markaðnum.

Styrkir markaðsráðandi stöðu Eimskips

Þessu er helsti samkeppnisaðili Eimskips, Samskip, ósammála. Í erindi til Samkeppniseftirlitsins segir að verið sé að leiða saman tvö skipafélög í einstakri stöðu á þeim mörkuðum sem þau starfa á. Samstarfið muni styrkja stöðu Eimskips, sem nú þegar njóti markaðsráðandi stöðu,  enn frekar og þar sem enginn geti veitt félaginu aðhald muni samstarfið á endanum leiða af sér hækkun flutningsgjalda þegar til lengri tíma er litið. Þá er bent á að íslenskum sjóflutningafyrirtækjum sé óheimilt að bjóða þjónustu sína á Grænlandi vegna sérleyfa Royal Arctic Line. Niðurstaðan veki því furðu og sé líkast til án fordæma.

Samkvæmt upplýsingum frá Samskip er verið að fara yfir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins og því ekki útilokað að málið komi til kasta dómstóla.