Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Neytendastofa sektar smálánafyrirtæki

15.12.2014 - 21:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Neytendastofa ætlar að sekta smálánafyrirtæki fyrir að fara ekki að tilmælum stofnunarinnar. Sektirnar geta numið allt að 20 milljónum króna.

Áfrýjunarnefnd neytendamála komst nýverið að þeirri niðurstöðu, að smálánafyrirtækin Kredia og Smálán brytu gegn lögum um neytendalán með því að innheimta kostnað fyrir flýtiafgreiðslu á lánum. Fyrirtækjunum hafi verið óheimilt að tilgreina ekki kostnaðinn í árlegri hlutfallstölu kostnaðar.

Samkvæmt lögum um neytendalán má sú prósentutala ekki vera hærri en 50% að viðbættum stýrivöxtum. Þegar flýtikostnaðurinn er reiknaður með verður talan hins vegar rúmlega 3.000%. Fyrirtækin hafa lýst því yfir að þau ætli með málið fyrir dómstóla, og að þjónustunni verði haldið áfram með sama hætti.

„En staðan er sú að þó þeir fari fyrir dómstóla, þá frestar það ekki réttaráhrifum ákvörðunar okkar", segir Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri hjá Neytendastofu

Verði þeir ekki að ykkar kröfum, verður þá sektum beitt?

„Já, við munum þá nota þau úrræði sem við höfum sem eru meðal annars sektir. Og þá annað hvort stjórnvaldssektir sem geta numið allt að 20 milljónum, eða dagsektir sem eru á bilinu 50.000-500.000 á dag", segir Þórunn.

En ykkur fannst ekki eðlilegra að bíða þangað til niðurstaða er komin í dómsmálið, með að beita þessum úrræðum?

„Í sjálfu sér höfum við heimild til að fara strax með þessi úrræði þó að farið sé með málið fyrir dómstóla. Og það getur náttúrulega tekið, eins og við þekkjum, langan tíma og annað þess háttar að gera það. Við erum búin að fá staðfestingu á okkar ákvörðun frá áfrýjunarnefnd neytendamála. Þannig að okkur fannst ekki ástæða til að bíða frekar", segir Þórunn og segist vona að búið verði að taka ákvörðun um málið fyrir jól.

Neytendastofa komst að sömu niðurstöðu varðandi hin smálánafyrirtækin - 1909, Hraðpeninga og Múla. Þeim úrskurði var einnig áfrýjað til áfrýjunarnefndarinnar en niðurstaða í því máli liggur ekki fyrir