Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Neytendastofa í samskiptum við dönsk yfirvöld

09.05.2019 - 14:17
úr umfjöllun Kveiks um smálán.
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson
„Ef opinbert stjórnvald eins og Neytendastofa úrskurðar að lánastarfsemi ákveðinna fyrirækja sé ólögmæt ber Creditinfo skylda til að framfylgja þeirri ákvörðun stjórnvalda með því að rifta samningum og tryggja að slík fyrirtæki hafi ekki aðgang að skráningu vanskila.“ Þetta segir Sigríður Laufey Jónsdóttir forstöðumaður þjónustu- og lögfræðisviðs Creditinfo.

Neytendastofa skoðar nú starfsemi smálánafyrirtækja. Þórunn Anna Árnadóttir lögfræðingur Neytendastofu segir að stofan sé í samskiptum við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og dönsk neytendamálayfirvöld vegna málsins. Hún segir að það flæki málið að fyrirtækið sé staðsett í Danmörku. Neytendastofa reyni að stuðla að því að öll lán séu veitt samkvæmt íslenskum lögum.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði að það væri ótækt að Creditinfo kannaði ekki lögmæti krafna áður en það setur fólk á vanskilaskrá. Sigríður Laufey sagði að dæmi væru um að einstaklingar hefðu verið teknir út af vanskilaskrá þótt lán hefðu ekki verið greidd upp, vegna þess að fólk hefði mótmælt lögmæti kröfunnar. Hún segir að ef vanskil hafa ekki verið staðfest með opinberri réttargjörð, áritaðri stefnu eða dómi sem kveðinn hefur verið upp, geti fólk komist hjá því að vera skráð á vanskilaskrá og í ákveðnum tilfellum látið taka sig út af vanskilaskrá.