Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Neyðast til að taka rafmagn af að hluta í Eyjum

14.02.2020 - 13:56
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: Tígull
Búið er að taka rafmagnið af að hluta í Vestmannaeyjum vegna álags, en varaaflstöðvar ná ekki að sinna bænum í heild sinni.

Í gær var haft samband við öll fyrirtæki í Eyjum og þau beðin um að keyra niður alla starfsemi eins og mögulegt er í dag. Aðeins þá væri möguleiki að halda rafmagninu inni án þess að treysta þurfi á varaaflið. Ívar Atlason hjá HS Veitum í Vestmannaeyjum sagði í samtali við fréttastofu nú fyrir stundu að þrátt fyrir að starfsemin sé lítil í bænum þá hafi álagið aukist og því þurft að grípa til skerðingar.

Ívar segir að vegna bilunar í Hvolsvalla- og Hellulínu hjá Landsneti sé rafmagn í Eyjum af skornum skammti. „Við eigum bara ekki meira varaafl sem stendur,“ segir Ívar.

Hann segir að búast megi við því að skerðingin vari í einhverjar klukkustundir.

Enn víðtækar rafmagnstruflanir á landinu

Samkvæmt tilkynningu frá RARIK eru enn víðtækar rafmagnsbilanir:

Á Vesturlandi er vitað um tvær truflanir. Álma að Húsafelli er úti. Þar eru brotnar slár. Hvalfjarðarlína er úti og norður hluti Hvalfjarðar og Svínadalur er rafmagnslaus. Mikil selta og hvassviðri er á svæðinu.

Á Suðurlandi eru truflanir á átta stöðum. Rafmagnslaust er á nokkrum bæjum undir Eyjafjöllum. Rafmagnslaust er í Vík og í Mýrdal. Það eru tveir brotnir staurar í Víkurlínu í Mýrdal. Rafmagn er skammtað í Vík og eru íbúar beðnir um að spara rafmagn. Rafmagnslaust er við Þingvallavatn frá Miðfelli að Mjóanesi. Þá er rafmagnslaust í Holtum, Landsveit og upp með Heklubæjum. Einnig er rafmagnslaust á nokkrum bæjum í Landeyjum og eru 27 staurar brotnir þar, en flestir eru þó með rafmagn eftir öðrum leiðum. Einnig er rafmagnslaust í innsta hluta Fljótshlíðar og inn í Þórsmörk. Línan milli Kirkjubæjarklausturs og Víkur er úti og þar með er rafmagnslaust í Álftaveri, Meðallandi og hluta Skaftártungna. Aðstæður á Suðurlandi eru að skána. Unnið er við bilanaleit og viðgerðir. Þessu til viðbótar er eldingaveður að koma yfir landið og það getur bæði valdið truflunum, en einnig getur þetta tafið fyrir truflanaleit og viðgerðum.

Á Austurlandi er hefur verið rafmagnslaust frá í morgun í sveitarfélaginu Hornafirði, vegna truflunar í flutningskerfinu. Einnig er bilun í dreifikerfinu. Búið er að koma rafmagni á Höfn og verið er að vinna í að koma rafmagni á sveitirnar.

Á Norðurlandi er einn bær í Miðfirði rafmagnslaus og verður farið í viðgerð um leið og aðstæður leyfa.