Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Neyðarsími fyrir vinnuþræla í haust

14.07.2016 - 20:41
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Rauði krossinn á Íslandi gerir ráð fyrir því að vinnu við að koma á fót hjálparsíma fyrir fórnarlömb mansals verði lokið í haust. Rauði krossinn fékk til þess styrk frá utanríkisráðuneytinu í desember í fyrra. Í skýrslu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu um mansal er þessi neyðarsími sérstaklega nefndur sem eitt dæmi um skref í rétt átt til að draga úr mansali á Íslandi.

Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, segir í samtali við fréttastofu að sumarleyfi hafi tafið verkefnið. Fórnarlömb mansal munu geta hringt í núverandi hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og fengið aðstoð. „Við vonumst til þess að hjálparsímann megi nota í þessum tilgangi sem allra fyrst. Gangi allt eftir verður það nú í haust,“ segir Björn.

Næstu skref séu að þjálfa sjálfboðaliða í að takast á við málaflokkinn. „Í þessum málaflokki er ekki mikil sérþekking á Íslandi. Það er nauðsynlegt að hagsmunaaðilar, hvort sem það sé félagsþjónustan, lögreglan eða Rauði krossinn afli sér nauðsynlegrar þekkingar í málaflokknum.“ Hann gerir ráð fyrir því að reynt verið að finna erlenda sérfræðinga til leiðbeina Íslendingum.

Nýverið hafa tvær erlendar skýrslur um mansal fært rök fyrir því að ástandið í þessum málaflokki sé verra hér á landi en margir töldu. Það sem af er ári hafa þrjú mansalsmál vakið athygli. Fyrrverandi starfsmaður Félags heyrnarlausra hefur verið sakaður mansal. Karlmaður sem rak prjónastofu á Vík í Mýrdal er grunaður um mansal. Meint mansal á að hafa átt sér stað á Hótel Adam við Skólavörðustíg.