New York bannar að fjarlægja kattarklær

23.07.2019 - 02:56
Mynd með færslu
 Mynd: Villikettir
New York varð í gær fyrsta ríki Bandaríkjanna til að banna að fjarlægja klær af köttum. Slíkt er bannað í nokkrum löndum og segja dýraverndunarsinnar aðgerðirnar grimmdarlegar.

Andrew Cuomo ríkisstjóri undirritaði lögin þar sem bannað er að fjarlægja klær katta af útlitsástæðum. Taka þau gildi strax en þau voru samþykkt af ríkisþinginu í júní. Enn verður þó heimilt að fjarlægja klær af köttum af læknisfræðilegum ástæðum.

New York Gov. Andrew Cuomo delivers his third State of the State address at the Empire State Plaza Convention Center on Wednesday, Jan. 9, 2013, in Albany, N.Y. (AP Photo/Mike Groll)
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP Photo/Mike Groll
Andrew Cuomo ríkisstjóri New York.

Ríkisstjórinn sagði við þetta tilefni að ómannúðlegt væri að fjarlægja klær af köttum þar sem það væri afar sársaukafullt fyrir dýrin. Slíkt gæti valdið líkamlegum vandamálum sem og hegðunarvandamálum. Með banninu væri tryggt að engir kettir þyrftu framar að þjást með þessum hætti.

Þegar klær eru teknar af köttum eru bein í fremri loppum fjarlægð að heild eða hluta. Kattareigendur grípa oft til þess ráðs vestanhafs til að koma í veg fyrir að kettir geti klórað þá og húsgögn.

Aðgerðir af þessu tagi eru bannaðar í flestum Evrópulöndum, til að mynda í Bretlandi og Sviss, og nokkrum borgum í Kaliforníu.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi