Netflix leggur undir sig Skógafoss fyrir tökur

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons

Netflix leggur undir sig Skógafoss fyrir tökur

05.09.2018 - 10:06

Höfundar

Tökulið bandarísku sjónvarpsþáttanna Lost in Space hefur fengið grænt ljós frá Umhverfisstofnun til að vera með nokkuð umfangsmiklar tökur við Skógafoss og Dyrhólaey. Stofnunin bendir þó á í umsögn sinni að á hverjum degi komi þúsundir gesta að Skógafossi og að verkefnið muni rýra upplifun þeirra. Flestir erlendu gestirnir komi að Skógafossi einu sinni yfir ævina og er tökuliðið beðið um að hafa það í huga. Um hundrað manns vinna við tökurnar.  

Fram kemur í umsókn framleiðslufyrirtækisins Pegasus , sem hefur veg og vanda af verkefninu, að tökurnar við Skógafoss taki tvo daga. Þær eiga að vera inni í vatnsúðanum frá fossinum og fékk tökuliðið leyfi til að setja upp 20 fermetra pall ofan í ána sem festur verður með fótum ofan í mölina. Moka þarf til efninu í ánni eða bera það að til að festa flekann og þá verður stillans með stiga settur upp á bakkanum við fossinn. 

Tökuliðið segist í umsókninni þurfa að takmarka aðgengi gesta að tökusvæðinu við fossinn en Umhverfisstofnun bað tökuliðið um að takmarka  þann tíma sem kvikmyndað væri eins og kostur er með tilliti til upplifun annarra gesta á svæðinu.  Á síðasta ári setti Umhverfisstofnun Skógafoss á lista yfir svæði í hættu en það hefði látið mikið á sjá vegna mikillar aukningar á ferðamönnum.

Tökuliðið fékk einnig leyfi frá Umhverfisstofnun til að athafna sig í fjörunni vestan Dyrhólaeyjar. Þar fékk það leyfi fyrir utanvegaakstri og fyrir að grafa þrjár til fimm holur eins nálægt fjöruborði og hægt er. Ofan á hverja holu verða settar rafmagnsreykvélar en keyra þarf kvikmyndakrana, skotbómulyftara, tvo úraltrukka og tvo pallbíla til að koma kvikmyndabúnaði á tökustað.

Umhverfisstofnun bendir tökuliðinu á að leyfi fyrir tökunum geti virkað hvetjandi á aðra sem heimsækja fjöruna til að aka utan vega. Tökustaðurinn sé fjölsóttur og því sé mikilvægt að það komi skýrt fram að svæðið sé lokað fyrir annarri umferð utan vega. Aðeins sé verið að leyfa akstur um fjöruna af sérstökum ástæðum. 

Umfangsminnstu tökurnar verða við Gullfoss þar sem notaður verður dróni til að kvikmynda yfir ánni frá neðri útsýnispallinum. Fimm starfsmenn verða við þær tökur.

Fyrsta þáttaröðin af Lost In Space naut nokkurra vinsælda þegar hún var sýnd á síðasta ári. Fram kom í frétt Variety að um 6,3 milljónir hefðu horft á þáttaröðina fyrstu þrjá dagana eftir að hún varð aðgengileg á Netflix. Þættirnir eru endurgerð á samnefndri þáttaröð frá sjöunda áratug síðustu aldar og  gerast í framtíðinni. Þeir segja frá Robinson-fjölskyldunni sem er sérþjálfuð til að finna ný heimkynni í geimnum.

Gerð var kvikmynd eftir gömlu sjónvarpsþáttunum sem frumsýnd var árið 1998 og skartaði William Hurt, Gary Oldman, Heather Graham og Mimi Rogers í aðalhlutverkum.

Tengdar fréttir

Innlent

Tveir af hverjum þremur með Netflix